Ég heilsa ykkur, kæru lesendur, af sökkvandi skipi. Skipið er breskt efnahagslíf en gatið á skrokknum braut skipstjórinn sjálfur.

Liz Truss er nýtekin við sem forsætisráðherra hér í Bretlandi. Væntingar til æðsta ráðamanns hafa sjaldan verið jafnlitlar. Í kjölfar kjörs Truss sögðust aðeins 22 prósent Breta ánægð með hinn nýja leiðtoga. En þrátt fyrir litlar væntingar tókst Truss að valda stórbrotnum vonbrigðum.

Liz Truss aðhyllist frjálshyggju eins og bókstafstrúarmaður aðhyllist kristni. Frægt er þegar fyrirmynd Truss, Margrét Thatcher, barði í borð bók eftir frjálshyggjuhagfræðinginn F.A. Hayek með orðunum: „Þetta er það sem við trúum á.“ Við kjör Truss lýsti samflokksmaður henni sem „frelsiselskandi, frjáls-markaðs-verjandi, skattalækkandi vélmenni á sjálfstýringu sem hefði verið forritað til að stefna í aðeins eina átt og gæti ekki skipt um stefnu (eða skoðun) sama hvað væri í veginum.“

En þrátt fyrir að Truss sé þekkt fyrir ósveigjanleika stóðu vonir til að þegar á hólminn kæmi tæki hún tillit til aðstæðna. „Stjórnartíð Liz Truss verður ekkert stórslys, aðeins glundroði,“ fullyrti pistlahöfundur íhaldsblaðsins The Times. Annar sagði Truss hljóta að sjá tækifærin í kredduleysi líkt og fjöldi forvera hennar úr sama flokki, þeirra á meðal Salisbury lávarður sem varð þrisvar forsætisráðherra og sagði „engan algildan sannleik eða lögmál í stjórnmálum.“

Umræddir pistlahöfundar éta nú hatt sinn.

Brauðmolar í gúmmíverksmiðju

Truss er vorkunn. Draumur hennar um forsætisráðherraembættið rættist á tímum krísu. Ríkið er skuldum vafið vegna Covid. Stríðið í Úkraínu veldur háu orkuverði svo að almenningur hefur ekki efni á að kynda heimili sín. Verðbólga rýrir kaupmátt fólks sem sumt þarf að neita sér um nauðsynjar.

Truss beið mikið verk. Verkið tekst hún á við á þann eina veg sem frelsiselskandi, skattalækkandi vélmenni á sjálfstýringu er fært.

Matarbankar anna ekki eftirspurn: Liz hyggst leggja niður auðlegðarskatt. Verðbólga hefur ekki verið hærri í Bretlandi í fjörutíu ár og seðlabankinn hækkar stýrivexti í von um að draga úr neyslu: Liz hyggst lækka almennan tekjuskatt til að auka neyslu. Heilbrigðiskerfið er fjársvelt: Liz hyggst lækka almannatryggingagjaldið.

Vika er frá því að ríkisstjórn Liz Truss kynnti efnahagsaðgerðir sínar. Síðan þá hefur gengi pundsins hrunið og skuldabréfamarkaðurinn farið á hliðina. Það hriktir í stoðum lífeyrissjóða. Seðlabankinn greip til neyðaraðgerða og hótar enn frekari vaxtahækkunum. Almenningur sér fram á að geta ekki borgað af húsnæðislánum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir Bretland ógna hagkerfi heimsins.

En Liz Truss situr við sinn keip. Eftir vikulanga þögn mætti hún loks í útvarpsviðtal og sagðist ekki ætla að bakka með neitt því hún „tryði á að þetta væri það besta fyrir landið.“

Breskur almenningur er staddur á sökkvandi farþegaferju. Liz Truss sendir björgunarbát að lystisnekkju sem liggur við höfn í Mónakó. Því hún trúir að ef eiganda hennar farnist vel muni brauðmolar falla af gnægtaborði hans sem kunni einn góðan veðurdag að enda sem fjárfesting í gúmmíverksmiðju þar sem framleiddir eru björgunarkútar.

Munið þið eftir guttunum sem gengu um vatnsgreiddir í jakkafötum á menntaskólaárunum með heildarútgáfu Milton Friedman í skjalatöskunni og Ayn Rand á náttborðinu, svo fallega öruggir í þeirri vissu að sama hvers væri spurt væri svarið alltaf frelsi, skattalækkun eða afnám hafta? Ég hef stundum velt fyrir mér hvað gerðist ef Heimdellingum yrðu afhentir stjórnartaumar heils lands. Nú vitum við svarið: Þetta. Nákvæmlega þetta.