Það er loksins ljós við enda ganganna. Með tilkomu bóluefnis, sem verður komið í útbreiðslu strax á nýju ári, skapast forsendur fyrir kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins. Ekki veitir af en vegna kórónuveirufaraldursins, ásamt þeim hörðu sóttvarnaaðgerðum sem gripið var til, hefur ríkissjóður orðið fyrir miklum tekjumissi samhliða gríðarlegu og varanlegu framleiðslutapi í hagkerfinu. Skuldsetning ríkisins, sem verður að fjármagna með lántökum, mun að líkindum aukast um liðlega þúsund milljarða á næstu fimm árum vegna fyrirséðs hallarekstur. Flestir héldu, meðal annars Seðlabankinn, að lífeyrissjóðirnir myndu gegna þar lykilhlutverki, sem hinir náttúrulegu kaupendur að þeim ríkisbréfum. Svo virðist hins vegar ekki ætla að vera og áhugi þeirra fram til þessa hefur verið af skornum skammti. Það er umhugsunarefni.

Seðlabankastjóri hefur, réttilega, viðrað áhyggjur sínar af því að sjóðirnir séu fjarverandi við fjármögnun ríkissjóðs. Hvað veldur? Lækkandi vaxtastig, sem dregur úr fjármögnunarkostnaði heimila og fyrirtækja og styður við efnahagsbata, skapar nýjar áskoranir fyrir lífeyrissjóði með 3,5 prósenta raunávöxtunarviðmið að leiðarljósi – samkvæmt lögum þurfa þeir að núvirða skuldbindingar sínar miðað við þá vexti umfram verðbólgu – við fjárfestingar sínar. Slíkt viðmið er vandasamt á tímum lágvaxtaumhverfis, sem er ólíklega að breytast á næstunni, og veldur því meðal annars að þeir virðast fráhverfir kaupum á ríkisbréfum. Framkvæmdastjóri LSR, stærsta lífeyrissjóðsins, sagði þannig í samtali við Markaðinn í liðinni viku að sjóðurinn horfði nú meira til annarra fjárfestingarkosta vegna „þeirrar ávöxtunarkröfu sem gerð er til lífeyrissjóða og þess lágvaxta­umhverfis sem við búum við í dag“.

Hér er komin upp nokkuð alvarleg staða. Lífeyrissjóðirnir eru umsvifamestu fjármagnseigendur landsins með um 300 milljarða til ráðstöfunar á ári. Þeir kjósa hins vegar, með vísan til þeirrar uppgjörskröfu sem gerð er til þeirra, að ráðstafa ekki hluta af þeim fjármunum til að fjármagna ríkissjóð á erfiðum tímum – jafnvel þótt raunvaxtamunur gagnvart bandarískum ríkisskuldabréfum hafi ekki verið meiri í þrjú ár – þar sem slík fjárfesting skili lágri raunávöxtun.

Vitað hefur verið um langt skeið að núverandi uppgjörskrafa sjóðanna er úrelt og ummæli stjórnenda þeirra staðfesta að hún er að hafa bein og skaðleg áhrif við fjárfestingaákvarðarnir.

Ekki skal gert lítið úr verkefni lífeyrissjóðanna á að tryggja sjóðsfélögum góða ávöxtun, sem hefur tekist afar vel síðustu ár, en þetta er skammsýn nálgun. Tilgangurinn með skuldsetningu ríkissjóðs, fjármögnun sem verður ekki útvistað alfarið til útlendinga heldur hlýtur að kalla á aðkomu stórra innlendra fagfjárfesta, er að styðja við hagkerfið í gegnum þessar hamfarir og þannig knýja fram hagvöxt síðar meir. Hagsmunir lífeyrissjóðanna, rétt eins og sjóðfélaga þeirra og allra Íslendinga, eru að þar takist sem best upp – og það mun aftur skila sér í jákvæðum áhrifum á aðrar fjárfestingaeignir þeirra til lengri tíma.

Enginn efast um mikilvægi þess öfluga sjóðasöfnunarkerfis sem við höfum byggt upp með farsælum hætti. Við hljótum samt að spyrja okkur við þessar aðstæður hvort búið sé að koma á þannig fyrirkomulagi, þar sem almenningi er gert að ráðstafa öllum sínum sparnaði til lífeyrissjóðanna, sem þjónar ekki lengur heildarhagsmunum sjóðsfélaganna best. Vitað hefur verið um langt skeið að núverandi uppgjörskrafa sjóðanna er úrelt og ummæli stjórnenda þeirra staðfesta að hún er farin að hafa bein og mögulega skaðleg áhrif við fjárfestingaákvarðarnir. Við því þurfa stjórnvöld að bregðast.