Nú þegar sól fer loks hækkandi á lofti og hitastigið fylgir með, sumardagurinn fyrsti er handan við hornið og bjartsýnustu Íslendingarnir eru farnir að huga að sumarfrísplönum, þá erum við enn og aftur minnt á hversu viðkvæmt ástandið er.

Í tæplega hálft ár hafa ekki greinst eins margir smitaðir og í fyrradag og eru allar líkur á að við höfum ekki séð fyrir endann á þessu nýjasta bakslagi. Undir eins heyrast raddir um að nú þurfi að rífa aftur í handbremsuna og herða enn á ný á aðgerðunum sem verið var að slaka örlítið á.

Þeim sem kalla undir eins eftir hertum aðgerðum má benda á að þessi stóru smit urðu þegar við einmitt bjuggum við hertar aðgerðir. Smittilfellin eru einfaldlega að koma fram núna, tveimur vikum síðar og má rekja þau til tveggja einstaklinga. Tveggja einstaklinga sem fóru óvarlega eftir að hafa komið til landsins og átt að vera í fimm daga sóttkví fram að seinni sýnatöku. Vegna annars þeirra eru nú um eitt hundrað fjölskyldur innilokaðar milli vonar og ótta. Reglurnar voru til staðar en þessir einstaklingar virtu þær ekki. Þar stendur hnífurinn í kúnni! Við höfum ekkert við hertar aðgerðir að gera ef fólki finnst þær ekki gilda um sig.

Við erum kannski ekki agaðasta þjóð heims og að sjálfsögðu er þetta orðið drulluþreytandi allt saman en við hljótum að geta virt þessar augljósustu reglur varðandi sóttkví og haldið áfram að leggja áherslu á persónulegar sóttvarnir. Vitandi að ef ekki þá skerðist frelsið enn frekar og þó að lífið hafi ekki beint gengið sinn vanagang hér á landi undanfarið þá búum við við meira frelsi en flestar aðrar þjóðir.

Og við bara hljótum að geta látið okkur hafa það að dvelja á hótelherbergi í fimm daga að lokinni utanlandsferð. Öll vitum við af reglum um heimkomusmitgát svo það er erfitt að vorkenna þeim sem velja að ferðast að þurfa að framfylgja þeim.

Í mínum huga er hóteldvöl lúxus og ef það að slaka aðeins á frá amstri hversdagsins, lokaður inni á herbergi sem upphaflega var hannað fyrir borgandi ferðamenn í leit að notalegheitum, í þægilegu rúmi, með bullandi nettengingu, þykka sæng og úrval sjónvarpsstöðva, þegar fínustu veitingastaðir eru farnir að stunda heimsendingar, er svona agaleg refsing, ætti fólk bara að halda sig alfarið heima.

Með því að framfylgja reglum um sóttkví við komu til landsins, hvort sem það er gert heima við eða á hóteli, verjum við náungann og stuðlum að því að samfélagið geti verið virkt. Þeir, sem er sama þó að hundrað fjölskyldum sé nú gert að loka sig af dögum saman, hafa ekki verið innilokaðir með smábarn allan sólarhringinn og mögulega þurft að sinna vinnu með.

Þeir foreldrar þiggja án efa nokkurra daga einveru á hótelherbergi að því loknu!