Eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins rær lífróður þessa dagana. Eftir undirritun nýrra kjarasamninga við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) stefnir Icelandair að því að klára samninga við fimmtán lánardrottna, íslenska ríkið og Boeing fyrir lok næstu viku svo hægt verði að efna í kjölfarið til hlutafjárútboðs. Verði af útboðinu, þar sem Icelandair hyggst sækja sér allt að 30 milljarða, er ljóst að þátttaka allra helstu lífeyrissjóða landsins verður nauðsynleg eigi að takast að endurfjármagna félagið. Ákvörðun lífeyrissjóðanna, sem komu síðast að endurreisn Icelandair fyrir hartnær áratug, að leggja félaginu til aukið fjármagn, getur aðeins verið tekin á viðskiptalegum forsendum með arðsemismarkmið að leiðarljósi. Hagsmunir sjóðsfélaga, sem treysta stjórnendum sjóðanna fyrir því ábyrgðarmikla hlutverki að ávaxta skyldusparnað sinn, eru þar undir.

Sumir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir þessu samhengi hlutanna. Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar, sem er hvað öðru vanstilltara í ofstæki sínu, hefur lagt sitt af mörkum í að leggja stein í götu björgunartilrauna flugfélagsins. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur þar farið fremstur í flokki með því að beina því til fulltrúa stéttarfélagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna að sniðganga eða greiða atkvæði gegn fjárfestingu í útboði Icelandair vegna óánægju með hvernig staðið var að kjaraviðræðum við FFÍ. Færu fulltrúar VR ekki að þeim tilmælum yrði þeim skipt út. Engu breytir þótt formaður VR hafi síðar dregið í land – hann vill samt skilyrða mögulega þátttöku sjóðsins í útboðinu við að stjórnendum Icelandair verði öllum skipt út – eftir að samningar náðust við flugliða. Skaðinn er skeður og vegið hefur verið að sjálfstæði stjórnar lífeyrissjóðsins. Það má ekki standa án eftirmála.

Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar, sem er hvað öðru vanstilltara í ofstæki sínu, hefur lagt sitt af mörkum í að leggja stein í götu björgunartilrauna flugfélagsins.

Augljósir tilburðir formanns VR til skuggastjórnunar með því að reyna að taka beina stjórn á sjóðnum eru ekki nýmæli. Aðeins rúmt ár er síðan Fjármálaeftirlitið beindi því til Lífeyrissjóðs verslunarmanna að endurskoða samþykktir sjóðsins sérstaklega með það í huga hvort og við hvaða aðstæður hægt væri að skipta út stjórnarmönnum. Var það gert eftir að fulltrúaráð VR hafði afturkallað umboð stjórnarmanna stéttarfélagsins í stjórn og sett inn nýja stjórnarmenn til bráðabirgða vegna ákvörðunar um vexti verðtryggðra sjóðfélagalána sem stjórn og fulltrúaráð VR voru ósammála um. Með því að ætla enn á ný að hafa áhrif á ákvörðunartöku sjóðsins, sem er ekki í eigu eða undir stjórn VR, hefur Ragnar Þór sýnt Fjármálaeftirliti Seðlabankans lítilsvirðingu og skeytt ekkert um þau tilmæli sem stofnunin hefur sent frá sér.

Við svo búið má ekki standa. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að það þurfi að „stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði lífeyrissjóðanna“. Bankinn muni beita sér fyrir því að sjálfstæði stjórnarmanna verði tryggt til frambúðar og eyða öllum grunsemdum um skuggastjórnun. Því ber að fagna. Eftir sem áður, eins og seðlabankastjóri nefnir sjálfur, eru yfirlýsingar formanns VR afar óheppilegar og draga úr trúverðugleika stjórnarmanna Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Ef þeir hafna því að taka þátt í útboði Icelandair munu eðlilega vakna strax grunsemdir um að þeir lúti skuggastjórn. Seðlabankanum er ekki stætt á öðru, vilji hann vernda trúverðugleika sinn, en að grípa umsvifalaust til aðgerða og jafnframt taka til athugunar hvort ástæða sé til að vísa málinu til ákæruvaldsins.