Undanfarið hafa ýmis sjúk samskipti fengið að líta dagsins ljós. Fyrir vikið er auðveldara en áður að spegla sig í þeirri andlegu ofbeldissýru sem fólki finnst í lagi að bjóða upp á.

Fólki sem á að vera svo gott, vel gert og vel gefið. Fólki sem með nafni sínu einu minnkar flesta í kringum sig og lendir því ekki oft í því að fá spurningarmerki við sturlaða hegðun sína.

Mikilmennskan er ótútreiknanleg en mynstrið er í raun ótrúlega einfalt og áhrifaríkt. Með því að minnka við fyrsta tækifæri flesta í kringum þig er hægt að koma af stað djúpri viðurkenningarþörf hjá jafnvel grjóthörðustu týpum.

Svo spyrst þetta út – að hinn sýrði og sjálfumglaði kalli nú ekki allt ömmu sína og sé mjög erfiður viðureignar. Það þurfi sko að passa sig. Viðkomandi geti jafnvel misst stjórn á sér við fólk án nokkurrar ástæðu. Hvað gerist næst?

Þú verður óörugg í fyrstu samskiptum við siðlausa sýrutrippið.
Það er búið að mála mynd. Þú ert honum ekki samboðin. Þú þarft að vinna þig upp.

Gera betur. Gera betur en hvað og hvers vegna er grátt?

Í framhaldinu ertu alltaf tekin aðeins niður sem þýðir að án þess að þú áttir þig á því snúast flest samskipti um að þú réttlætir þig við einhvern sem á ekkert inni hjá þér og er í raun ekkert annað en ofbeldisseggur.

En athugið að þessi týpa er eldklár og kann að dansa á línunni og sáldra gullhömrum þegar henni finnst mikilvægt að stytta í taumnum.

Og svo rétt í því sem sjálfsmynd þín tekur á sig mynd er taumnum smeygt blíðlega um hálsinn á þér – og þrengt að.

Og taumarnir liggja víða.