Nýliðin áramót heilsuðu líklega fleiri heimilishundar nýju ári á Íslandi en nokkru sinni í sögu þjóðar. Að fá sér hund er jarðtenging. Sáttargjörð við lífið. Það sem hundurinn leitar að finnur hann hjá manninum og það sem maðurinn leitar að finnur hann í augum hundsins, segir Nóbelskáldið í Sjálfstæðu fólki.

Þegar tveir hundar mætast upphefst dans uns annar leggur niður skottið. Þá eru báðir sáttir. Sál hundsins lifir og hrærist í stigveldissamskiptum. Þess vegna er hundur svo núllstillandi félagsskapur. Hann nær gleði með því að lúffa í sambandinu.

Verkefni mannsins eru flóknari. Fyrstu taugaviðbrögð okkar í aðstæðum eru gjarnan í ætt við hundseðlið; yfirráð eða undirgefni, árás eða flótti. En mennskan krefst þess að við yfirskríðum frumeðlið, stígum út fyrir okkur sjálf og rannsökum aðstæður í rými, tíma og tengslum frá ótal hliðum.

Ritverkið Sjálfstætt fólk er ekki síst rannsókn á eðli stigveldissamskipta. Nánasti aðstandandi Bjarts í Sumarhúsum er hundstík hans á hverjum tíma. Horuð og lúsug. Bjartur lifir fastur í heimi stigveldistengsla þar sem samfélagsöflin í mynd Rauðsmýrarfólksins þjarma að honum en hann níðist á sínum litla her; eiginkonu, börnum og búsmala. Allt sem er viðkvæmt visnar og deyr undir þaki Bjarts vegna þess að hann axlar ekki ábyrgð en horfir á veruleikann af sjónarhóli hundsins.

Nýliðin áramót heilsuðu færri plöntu- og dýrategundir nýju ári en nokkru sinni frá því sögur hófust á þessum hnetti. Vísindafólk rekur fölnun lífríkis til sömu tengslaþátta og hrjáðu heimilið að Sumarhúsum. Hugsanleg ættum við að fjölga sjónarhólum?