Fyrir fáeinum dögum birtist frétt á vef Matvælastofnunar (MAST) um að stofnuninni hefði borist tilkynning frá Arnarlaxi um gat á netapoka sjókvíar í Patreksfirði. Var þetta í fjórða skiptið frá áramótum sem MAST upplýsti um að rifin net hefðu uppgötvast í sjókvíaeldi við landið en eins og allir vita synda fiskar út um göt þegar þau myndast. Í þetta skiptið var sleppislysið úr sjókví sem innihélt um 100.000 sjö kílóa, frjóa eldislaxa af norskum stofni. Einmitt af þeirri stærð sem getur orðið náttúrunni hvað skeinuhættust.
Fyrr í apríl hafði verið sagt frá gati á sjókví með 90.000 stykki af átta kílóa norskum eldislaxi, í mars var tilkynnt um þrjú göt á sjókví með regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi og í febrúar um gat á laxeldiskví í Dýrafirði með 170.000 stykki af 2,5 kílóa norska laxinum.
Auðvitað veit enginn hversu margir fiskar hafa sloppið í öllum þessum tilvikum. Augljóst er einnig að þegar um um 150.000 (800 tonn) eldislaxar drápust í Arnarfirði í vetur vegna óveðurs og þrengsla í sjókvíunum var veruleg hætta á að mikið magn þeirra slyppi. Þekkt er, þegar svona mikil dauði er, að kvíarnar hreinlega sökkvi eða netin rifni. Í Færeyjum sluppu yfir 200.000 laxar vegna óveðurs og svipaðra aðstæðna um mánaðamótin febrúar og mars.
Með öll þessi slys á borðinu er sorglegt að nýtt áhættumat fyrir erfðablöndun eldislaxa við villta laxastofna hafi verið knúið fram af sjávarútvegsráðherra og Alþingi. Áhættumat sem byggt er á ónógri reynslu af rekstri þessara fyrirtækja en þekktum skaðlegum afleiðingum fyrir náttúruna. Enn sorglegra er að það skuli hafa verið opnað fyrir eldi í Ísafjarðardjúpi með þeirri ógn sem það hefur fyrir árnar þar og laxveiðiárnar, sérstaklega í Húnavatnssýslum. Slysin munu halda áfram að eiga sér stað þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað.
Það er vitað að þessar sjókvíar halda ekki fiski. Ef fyrirætlanir stjórnvalda um að stórauka laxeldi hér á landi og hleypa því inn í Ísafjarðardjúp verða að veruleika mun það hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir villta íslenska laxastofna.