Fyrir fá­einum dögum birtist frétt á vef Mat­væla­stofnunar (MAST) um að stofnuninni hefði borist til­kynning frá Arnar­laxi um gat á neta­poka sjó­kvíar í Pat­reks­firði. Var þetta í fjórða skiptið frá ára­mótum sem MAST upp­lýsti um að rifin net hefðu upp­götvast í sjó­kvía­eldi við landið en eins og allir vita synda fiskar út um göt þegar þau myndast. Í þetta skiptið var sleppi­slysið úr sjó­kví sem inni­hélt um 100.000 sjö kílóa, frjóa eldis­laxa af norskum stofni. Ein­mitt af þeirri stærð sem getur orðið náttúrunni hvað skeinu­hættust.

Fyrr í apríl hafði verið sagt frá gati á sjó­kví með 90.000 stykki af átta kílóa norskum eldis­laxi, í mars var til­kynnt um þrjú göt á sjó­kví með regn­boga­silungi í Ísa­fjarðar­djúpi og í febrúar um gat á lax­eldiskví í Dýra­firði með 170.000 stykki af 2,5 kílóa norska laxinum.

Auð­vitað veit enginn hversu margir fiskar hafa sloppið í öllum þessum til­vikum. Aug­ljóst er einnig að þegar um um 150.000 (800 tonn) eldis­laxar drápust í Arnar­firði í vetur vegna ó­veðurs og þrengsla í sjó­kvíunum var veru­leg hætta á að mikið magn þeirra slyppi. Þekkt er, þegar svona mikil dauði er, að kvíarnar hrein­lega sökkvi eða netin rifni. Í Fær­eyjum sluppu yfir 200.000 laxar vegna ó­veðurs og svipaðra að­stæðna um mánaða­mótin febrúar og mars.

Með öll þessi slys á borðinu er sorg­legt að nýtt á­hættu­mat fyrir erfða­blöndun eldis­laxa við villta laxa­stofna hafi verið knúið fram af sjávar­út­vegs­ráð­herra og Al­þingi. Á­hættu­mat sem byggt er á ó­nógri reynslu af rekstri þessara fyrir­tækja en þekktum skað­legum af­leiðingum fyrir náttúruna. Enn sorg­legra er að það skuli hafa verið opnað fyrir eldi í Ísa­fjarðar­djúpi með þeirri ógn sem það hefur fyrir árnar þar og lax­veiði­árnar, sér­stak­lega í Húna­vatns­sýslum. Slysin munu halda á­fram að eiga sér stað þrátt fyrir fögur fyrir­heit um annað.

Það er vitað að þessar sjó­kvíar halda ekki fiski. Ef fyrir­ætlanir stjórn­valda um að stór­auka lax­eldi hér á landi og hleypa því inn í Ísa­fjarðar­djúp verða að veru­leika mun það hafa hörmu­legar af­leiðingar í för með sér fyrir villta ís­lenska laxa­stofna.