Smáþörungafamleiðsla felur í sér tækifæri fyrir Ísland til að auka útflutningstekjur, nýta þekkingu á sviði matvælaiðnaðar, verkfræði og annarra tæknigreina og nýta dýrmætar auðlindir fyrir vistvæna og umhverfisvæna matvælaframleiðslu. Það skiptir miklu máli að yfirvöld á Íslandi horfi til þessara tækifæra og skapi þessari nýju atvinnugrein sterkan grunn sem er samkeppnishæfur til framtíðar á alþjóðavísu. Ýmis hátæknistörf skapast sem og nýsköpun á sviði líftækni, verkfræði og matvælafræði.

Þær auðlindir sem þarf fyrir ræktun þörunga er umhverfisvænt rafmagn, hreint vatn og hreint loft, sem Ísland er þekkt fyrir. Smáþörungarækt er því tækifæri fyrir Ísland sem felur í sér möguleika á að byggja á þeim grunni öfluga matvælaframleiðslu með neikvætt kolefnisspor. Fyrir hvert kg af smáþörungum þá nýtir þörungurinn 1.8 kg af kolsýringi.

Smáþörungar eru skilvirkasti hópur lífvera á jörðinni sem breytir koltvísýringi í næringarrík efni fyrir aðrar lífverur, þar á meðal fyrir okkur mennina. Þeir eru örsmáar lífverur sem finnast bæði í fersku vatni og sjó og innihalda mikið af næringarefnum svo sem lífsnauðsynlegar amínósýrur og lífsnauðsynlegar fitusýrur, þar á meðal omega-3, omega-6, omega-7, ásamt vítamínum. Næringarinnihald smáþörunga er breytilegt eftir tegundum en meira en 100.000 tegundir hafa verið skjalfestar. Fáar tegundir smáþörunga eru notaðir í dag í matvæli. Helstar þeirra eru Chlorella, Spirulina, Haematococcus og Nanochloropsis. Haematococcus er mjög ríkur af öfluga andoxunarefninu astaxanthini og er það sama efni og gefur laxfiskum rauða litinn en í náttúrunni fá fiskar astaxanthin úr þörungum. Smáþörungar eru undirstaða fæðukeðjunnar í sjó og vötnum. Efni úr þeim ferðast upp fæðukeðjuna og eru mikilvæg næringarefni fyrir fisk sem í vissum tilvikum safna þeim í vefi svo sem astaxanthini og omega- 3 fitusýrum.

Þjóðir heims þurfa að leita nýrra leiða til að brauðfæða þegna sína á sjálfbæran en jafnframt umhverfisvænan máta. Tæplega milljarð manna í heiminum skortir mat og fjöldi vannærðra í heiminum fer enn vaxandi. Á sama tíma hefur það mikil áhrif á jörðina hvernig við framleiðum matvæli. Eftirspurn eftir hráefni eins og sojabaunum í dýrafóður mun tæplega tvöfaldast fram til ársins 2050. Þurrkaðir smáþörungar eins og Spirulina innihalda 30% til 60% prótein sem gerir það sambærilegt við sojabaunir, sem innihalda um það bil 35% til 40% prótein. Það er mikill umhverfislegur ávinningur af því að nýta smáþörunga inn í virðiskeðju matvælanna. Þörungar verða í framtíðinni hluti af venjulegri fæðu enda eru smáþörungar ein öflugasta næringaruppspretta sem til er hvort sem um er að ræða lífsnauðsynleg næringarefni, prótein, fitu og ýmis efni sem gagnast heilsu manna og dýra og hafa smáþörungar oft verið nefndir ofurfæða framtíðarinnar. Smáþörungar eru jafnframt tilvalið hráefni í vegan vörur. Smáþörungar til manneldis eru nú á tímum markaðssettir í mismunandi formum eins og töflum, hylkjum og vökva. Þeir eru einnig nýttir til blöndunar í ýmis matvæli sem næringarefni og náttúruleg litarefni. Á heildina litið var heimsmarkaðurinn fyrir smáþörunga metinn á um 30 milljarða Bandaríkjadala árið 2018 og mun vaxa hratt á næstu árum. Er áætlað að hann verði um 60 milljarðar Bandaríkjadala fyrir árið 2027.

Smáþörungaræktun hefur verið stunduð um árabil og er í stöðugum vexti og þá sérstaklega í heitari löndum þar sem sólarljóss gætir meira og minna allt árið. Ræktunin fer oft fram í grunnum opnum tjörnum sem ná yfir stór svæði. Slíkt ræktunarkerfi er ódýrt í byggingu og orkukostnaður lágur. Ókostirnir við tjarnirnar eru að það er erfitt að hafa stjórn á mikilvægum ræktunarbreytum, þær eru plássfrekar, framleiðnin er lítil og þær eru óvarðar fyrir mengun sem hefur augljóslega neikvæð áhrif á gæði afurðanna.

Smáþörungaræktun þarf ljós, koltvísýring og hreint umhverfi, loft og vatn. Líftækni- og nýsköpunarfyrirtækið SagaNatura í Hafnarfirði var stofnað 2014 og selur í dag smáþörunga- og heilsuvörur á erlenda markaði. Fyrirtækið hefur þróað ræktunarkerfi og byggt upp framleiðslu á smáþörungum og hefur fengið einkaleyfi á lokuðum ræktunarkerfum sem hafa sérstöðu á alþjóðamarkaði. Ræktunarkerfi SagaNatura byggir á að hámarka framleiðni, lágmarka orkunotkun sem og að stýra sjálfvirkt meginþáttum framleiðslunnar. SagaNatura hefur verið leiðandi í að byggja upp nýjar leiðir í ræktunartækni á smáþörungum og hefur þróað fjölmargar vörur sem seldar eru víða um heim.