Þegar öllu er á botninn hvolft er íslenska lífeyriskerfið ágætlega heppnað. Það er vissulega þörf á ýmsum fínstillingum – jafnvel einstaka kerfisbreytingum – en varhugavert er að umbylta kerfi sem heldur utan um sparnaðinn sem landsmenn treysta á að verði til staðar á ævikvöldinu. Allar breytingar þurfa að vera vel ígrundaðar.

Í umfjöllun Markaðarins í síðustu viku var rætt við fjölmarga stjórnendur, sérfræðinga og einkafjárfesta svo að unnt væri að álykta hvaða breytingar viðskiptalífið vildi sjá í lífeyriskerfinu. Langflestir viðmælendur nefndu þrjú atriði. Í fyrsta lagi væri lífeyriskerfið orðið of stórt fyrir íslenska hagkerfið. Í öðru lagi þyrfti að auka frelsi einstaklinga við ávöxtun séreignarsparnaðar til þess að vinna gegn samþjöppun valda í fjármálakerfinu. Og í þriðja lagi þyrfti að búa svo um hnútana að sjóðfélagar gætu kosið með fótunum ef þeim hugnast ekki stjórn sjóðanna.

Þetta eru skynsamlegar tillögur – að baki þeim búa engar annarlegir hvatir. En, eins og viðbúið var, fóru þær öfugt ofan í verkalýðsforingja sem eru helteknir af róttækri hugmyndafræði. Einn þeirra sagði að tillögurnar væru það sem „stóreignastéttin kallar að sölsa undir sig lífeyrissjóðina“. Eins og tuttugasta öldin vitnar um er það engin nýlunda að efsta lagið í sósíalísku valdakerfi berjist gegn valddreifingu og frelsi til að kjósa með fótunum þegar til kastanna kemur.

Það verður að teljast ólíklegt að beint lýðræði í sjóðunum sé fullnægjandi lausn. Fátækleg lýðræðishefð endurspeglast í því að einungis nokkrir tugir sækja ársfundi hjá sjóðum þar sem fjöldi sjóðfélaga skiptir tugum þúsunda. Kerfi, sem skerðir sjálfsákvörðunarrétt um ráðstöfun lífeyrissparnaðar, hefur alið af sér sinnuleysi. Sjóðfélagalýðræðið þarf fyrst að ná ákveðnum þroska svo að koma megi í veg fyrir að skipulagðir hagsmunahópar geti tekið yfir sjóði á fásóttum fundum.

Eins og kom fram í máli viðmælenda úr viðskiptalífinu þarf að draga úr þeirri fjarlægð sem hefur skapast á milli fólks og sparnaðar þess. Það er gert með því að auka frelsi í ráðstöfun séreignarsparnaðar og draga úr skylduaðild að lífeyrissjóðum eins mikið og hægt er. Þó að viðfangsefnið sé flókið – sjóðirnir eru mismunandi hvað varðar samsetningu sjóðfélaga og þar með þyngd örorkubyrða – er ekki hægt að fallast á að það sé með öllu óleysanlegt.

Þetta er brýnt mál. Sjóðfélagar eiga að geta gengið að því vísu að ávöxtun lífeyrissparnaðar sé það eina sem vakir fyrir stjórnum sjóðanna. Enginn vafi má leika á því. Skylduaðild í bland við helmingaskipti stjórna á milli samtaka atvinnurekenda og verkalýðshreyfinga er einstaklega óheppilegt fyrirkomulag þegar spenna á milli þessara tveggja fylkinga fer vaxandi.