Töluvert var fjallað um mikla aukningu heimilisofbeldis í kórónaveiru­faraldrinum en vandinn varð svo aðkallandi að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvatti ríkisstjórnir um allan heim til að grípa til aðgerða. Ísland var engin undantekning í þessum efnum, en færri vita kannski, að á liðnu ári, árinu sem lífið fór aftur í fyrri skorður eftir samkomutakmarkanir og lokunaraðgerðir, var slegið met í fjölda tilkynninga um heimilisofbeldi hér á landi!

Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi einhvers nákomins. Gerandi og þolandi eru skyldir eða tengdir og háttsemin felur í sér ofbeldi, hótun eða eignaspjöll.

Fyrstu sex mánuði liðins árs bárust lögreglunni sjö tilkynningar á dag um heimilisofbeldi eða ágreining. Sjö tilkynningar á dag! Sjö heimili í molum hvern einasta dag! Reyndar vitum við að raunverulega talan er hærri enda viðkvæmur flokkur þar sem alls ekki öll mál rata á borð lögreglu. Samkvæmt þessu fjölgaði tilkynningum um tæplega 13 prósent samanborið við árin á undan og eru heimilisofbeldismál nú orðin meira en helmingur líkamsmeiðinga- og manndrápsmála sem koma á borð lögreglu.

Flest tilvikin, eða tvö af þremur, eru af hendi maka eða fyrrum maka en málum þar sem um er að ræða fjölskyldutengsl, svo sem ofbeldi á milli barna og foreldra, fjölgar einnig og eru tæplega 32 prósent heimilisofbeldismála. Það kemur svo varla á óvart að í um 80 prósentum tilfella er árásaraðilinn karl og í meirihluta tilfella, eða tæplega 80 prósent, brotaþolinn kona.

Fyrir helgi var tilkynnt um að áframhaldandi rekstur ofbeldisgáttar Neyðarlínunnar væri tryggður. Ofbeldisgáttina má finna á vefsíðu Neyðarlínunnar, 112.is, en þar er safn upplýsinga fyrir þolendur, aðstandendur og gerendur á íslensku, ensku og pólsku. Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar sagði við tilefnið að ásókn í úrræðin sem í boði eru hafi margfaldast frá því vefurinn var settur í loftið.

Það má vera að sú vitundarvakning skýri að einhverju leyti téða fjölgun tilkynninga en markmiðið hlýtur þó alltaf að vera að fækka sjálfum tilfellunum og koma þannig í veg fyrir þær átakanlegu afleiðingar ofbeldis sem sannað hefur verið að ganga mann fram af manni. Til þess þarf vissulega aukna fræðslu – en aðallega þarf að hugsa vandann heildstætt.

Biðlisti er plássfrekt hugtak í íslensku samfélagi. Biðlistar í áfengis- og vímuefnameðferð, biðlistar hjá sálfræðingum og biðlistar hjá geðlæknum telja hundruð, jafnvel þúsundir. Svo jafnvel þeir sem vilja sækja sér hjálp – þurfa að gjöra svo vel og bíða.

Bíða þar til það er jafnvel of seint.