Nú rífa margir hár sitt og skegg, ef því er að skipta, út af nýafstaðinni Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, eða COP27. Það er hægur leikur í ljósi þeirrar ráðstefnu og alls þess sem er að gerast í heiminum að tileinka sér mjög djúpa svartsýni þegar kemur að framtíðarhorfum varðandi líf á jörðu. Ákaflega margt bendir til að mannkynið sé að fara með vistkerfið til helvítis, og þegar þjóðir koma saman, eins og á ráðstefnunni, er eins og enginn ætli að gera neitt í neinu. Doðinn virðist algjör. Tafaleikir eru spilaðir. Rifist er um orð í ályktunum á meðan jöklar bráðna, skógar brenna og lönd sökkva.

Eða hvað? Áður en stokkið er út í skúr og náð í spjald og kústskaft til að búa til skilti til þess að skrifa á það „Þetta er búið“ til þess að standa með í úlpu í Skeifunni um helgina, er kannski mikilvægt að reyna að anda með nefinu eða hugleiða um stundarsakir í lótusstellingunni á steini við hafið í nóvemberblíðunni. Ná áttum.

Sjáum til. Jú, svartasta bölsýni á fyllilega rétt á sér. Hún er mjög skiljanleg. Í raun er hún óþægilega viðeigandi. Eins og staðan er núna, og miðað við núverandi útblástur gróðurhúsalofttegunda, stefnir í að hlýnun lofthjúpsins verði 2,8 gráður á þessari öld, miðað við upphaf iðnvæðingar. Það yrði fullkomin katastrófa. Í löndum þar sem nú búa milljarðar manna yrði ólíft. Fólk stæði frammi fyrir því að flýja þau lönd eða svitna til dauða í banvænu samspili ofsahita og raka. Veröldin að öðru leyti myndi breytast í martraðarkennt óvissusvæði veðurfarshörmunga af áður óþekktri stærðargráðu. Þetta er veröld barna okkar og barnabarna. Ofan á náttúruhamfarir munu bætast ógnir vegna félagslegs óstöðugleika, gríðarstórra strauma flóttafólks, stríðsátaka, hungursneyða og annars böls. Þau kerfi sem mannfólkið hefur búið sér til eru engan veginn í stakk búin til þess að takast á við þá áratugi af viðvarandi neyðarástandi sem eru í uppsiglingu.

Önnur ástæða til að standa með skilti í úlpu yfir hátíðirnar fyrir utan búðir felst í því að ákaflega margar vísbendingar eru fyrir hendi um að mannkynið stefni alls ekki í rétta átt í aðgerðum sínum svo hægt verði að fyrirbyggja skelfingarnar. Olíufyrirtæki munda nú borana á áður ónýttum olíulendum í Afríku eins og enginn sé morgundagurinn og útblástur dregst ekki saman, þótt ríkisstjórnir lýsi yfir háleitum markmiðum í þá veru. Og stórþjóðum eins og Rússum og fleirum virðist einfaldlega slétt sama. Fara bara í stríð.

Rúskí karamba, svo vitnað sé í Fóstbræður. Nýleg skýrsla um stöðu loftslagsaðgerða á heimsvísu hefur leitt í ljós að á engum kvarða af ríflega fjörutíu hafa þjóðir heims sýnt nægilegan árangur í loftslagsmálum. Það er eins og ekkert liggi á. Allir sallarólegir. Á nokkrum kvörðum var stefnan beinlínis í ranga átt

Orð og ályktanir munu ekki leysa loftslagsvandann, heldur aðgerðir. Í raun þarf að breyta öllum kerfum og grundvallarhugsunum. Veröldin þarf nýtt orkukerfi, nýja tegund matvælaframleiðslu, nýjar neysluhefðir og sumir segja jafnvel ný trúarbrögð, til þess að efla andann, byggð á lotningu fyrir náttúrunni og umhverfinu sem elur okkur og nærir.

Þetta er soldið mikið. Fyrir þjóð sem getur ekki einu sinni selt hlutabréf í banka eða gert kjarasamninga hljómar þetta óyfirstíganlegt. Vísindasamfélagið segir að mannkynið hafi sjö ár. Ef ekki tekst að draga úr útblæstri um helming næstu sjö árin lokast gluggi. Þá fer hlýnun jarðar yfir eina og hálfa gráðu og vítahringir loftslagsbreytinga hefjast, sem leiða til enn meiri hlýnunar.

Tökum þá upp léttara hjal. Núna setja ríkisstjórnir heims eina og hálfa trilljón Bandaríkjadala á ári hverju í það að beinlínis niðurgreiða olíunotkun og skógareyðingar. Fyrir þann pening má kaupa Apple-fyrirtækið tvisvar og eiga afgang. Af bjartsýnum sjónarhóli – smá Pollíönnu – má segja að þarna sé jú krani sem kannski er hægt að snúa. Ef þessi peningur er settur í orkuskipti og umbreytingar, þá er von.

Kannski er þetta að gerast. Á COP27 var ekki bara rifist um orð í ályktunum. Urmull af samþykktum milli alls konar aðila leit þar líka dagsins ljós, um uppbyggingu á hreinni orkuframleiðslu úti um allar jarðir. Sólar- og vindorka hefur aldrei verið ódýrari. Fjárfestingar í vistvænum verkefnum á heimsvísu hafa margfaldast. Kröfur ungs fólks og annarra um breytingar stigmagnast ár frá ári. Alveg eins og í náttúrunni, þar sem víxlverkun atburða getur leitt til veldisvaxtar í hörmungum, þá getur félagsleg víxlverkun alls konar atburða – umbreyting kerfa skapar velsæld sem skapar meiri getu sem skapar enn hraðari umbreytingu kerfa – líka skapað veldisvöxt framfara sem kannski mun bjarga veröldinni frá allra verstu hörmungunum.

Í öllu falli má ekki missa vonina. Án hennar er ekkert.