Alþingi kemur saman á þriðjudag, tæpum tveimur mánuðum eftir kosningar og má ætla að þingmenn hafi haft nægan tíma til að búa sig undir þingstörfin í vetur.

Meginhlutverk Alþingis er þríþætt, en það fer með fjárlagavald ríkisins, sinnir ríkri eftirlitsskyldu með stofnunum þess og setur landsmönnum lög og breytir þeim eftir atvikum.

Af þessu mætti ráða að þingmenn hafi meiri völd en gengur og gerist meðal annarra landsmanna. En raunin er önnur, því þótt þeir annist lagasetninguna, láta þeir öðrum eftir að túlka lögin og fylgja þeim eftir.

Fyrir vikið er vilji Alþingis oft og tíðum hafður að vettugi, en þingmál sem jafnvel njóta stuðnings allra þjóðkjörinna fulltrúa löggjafarsamkundunnar og verða fyrir vikið að lögum, liggja eftir á skrifborðum framkvæmdavaldsins og undirstofnana þess og leka þaðan ofan í læstar hirslur.

Óheyrilegur fjöldi þingmála hefur fengið þennan dóm, en ástæðuna má annað tveggja rekja til ofríkis framkvæmdavaldsins og einræðislegra tilburða innan stofnanakerfisins.

Og kerfið ræður fyrir vikið. Það setur ekki lögin, en lætur sér fátt um finnast, svo sem allir þeir þingmenn þekkja sem hafa komið sínum málum í gegnum þingið – í krafti meirihluta þess og vilja velflestra landsmanna, en upplifa svo algert áhugaleysi og fálæti framkvæmdavaldsins þegar að því kemur að fylgja þeim eftir.

Gildir hér einu hvaða góði hugur þingmanna býr að baki, hvort heldur þeir hafa lagt ómælda vinnu í þingsályktunartillögu um verulegar umbætur, eða leggja öðrum þingmönnum lið með stuðningi við þaðan af stærri þingmál, því húsið vinnur oftar en ekki, ekki þinghúsið, heldur hitt húsið sem geymir opinbera embættismenn, eina vernduðustu starfsmenn íslensks atvinnulífs, sem ákveða hvort og hvernig lögin virka.

Tökum bara eitt dæmi, en árið 1994 samþykkti þingheimur lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum sem ýmist voru eða hafa verið á válista eða í bráðri útrýmingarhættu. Þingmenn þessa tíma greiddu frumvarpi þessa efnis atkvæði í góðri trú, einmitt til að stemma stigu við ofveiði.

En í krafti túlkana Umhverfisstofnunar og fyrirrennara hennar hafa dýrin verið veidd öll árin í miklum mæli frá því lögin voru sett, ef undan er skilin rjúpan í tvö ár af þessum 27 sem liðin eru.

Alþingi setur lög. Samkvæmt vilja meirihlutans. En það dugar oft skammt.