Á hverju ári svipta sig lífi í kringum 40 manns á Íslandi. Hvert sjálfsvíg setur líf 5-6 nánustu ættingja algerlega úr skorðum og hefur djúp áhrif á 40-100 manns til viðbótar. Það er því býsna stór hópur, allt að 4.000 manns á ári, sem þarf verulegan stuðning í kjölfar sjálfsvígs.

Í dag, föstudaginn 10. september, er Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna – en um leið dagur þegar við minnumst þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Á nokkrum stöðum verða haldnar minningarstundir af því tilefni.

Sú var tíðin – og ekki það fyrir löngu – að sjálfsvíg voru ekki rædd enda hvíldi á þeim skömm og sektarkennd. Sem betur fer hafa viðhorfin breyst með aukinni þekkingu á orsökum sjálfsvíga og forvarnir orðnar öflugri en áður með opinskárri umræðu byggðri á reynslu. Samt verða sjálfsvígin eftir sem áður.

Að þessu sinni beina þau samtök og stofnanir sem koma að þessum erfiða mannlega veruleika sjónum að stuðningi í kjölfar sjálfsvígs (postvention). Reynslan hefur sýnt að þau sem standa næst þeim sem fallið hafa fyrir eigin hendi, upplifa oft mjög sterkar tilfinningar eins og áfallastreitu, kvíða og þunglyndi – jafnvel sjálfsvígshugsanir. Meðal ungs fólks getur slíkt leitt til keðjuverkana. Hópurinn í kringum hinn eða hina látnu er oft í aukinni sjálfsvígshættu, einkum þau ungu. Þess vegna þurfum við að styðja betur þennan stóra hóp sem er í áfalli eftir sjálfsvíg.

Eitt sinn heyrði ég af manni sem hafði misst bróður sinn í sjálfsvígi. Hann orðaði það svo að bróðir sinn hefði „dáið úr angist“. Lífið var of kvalafullt til að lifa því. Á hverju ári deyja 40 manns úr angist á Íslandi. Og afleiðingin er angist fyrir þúsundir sem eftir lifa. Reynum að gera lífið bærilegra fyrir þennan stóra hóp – minnug þess að sjálfsvíg eru aldrei rétta leiðin.