Nú liggur fyrir Alþingi lagafrumvarp varðandi breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem samkvæmt lögunum eru útsvar, fasteignaskattur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Lagabreytingin varðar einkum jöfnunarsjóðinn en hlutverk sjóðsins er að jafna misháar skatttekjur og útgjöld sveitarfélaga. Samkvæmt frumvarpinu skal ráðherra, til grundvallar útreikningi jöfnunarframlaga, halda skrá yfir álagðar skatttekjur sveitarfélaga og fullnýtingu útsvars og fasteignaskatts. Lögfestar verða skerðingarheimildir til ráðherra sem byggja á afar flóknu og um margt umdeildu reikniverki jöfnunarsjóðsins.

Þrátt fyrir metnaðarfullt hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vakna spurningar um hvort rétt sé að samþykkja fyrirliggjandi lagafrumvarp án þess að áður fari fram heildarúttekt á fjárframlögum úr sjóðnum, en bæjarstjóri Garðabæjar hefur lagt til á stjórnarfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga að slík úttekt fari fram. Á árinu 2017 fékk t.d. sveitarfélag með mjög háar tekjur af fasteignaskatti pr. íbúa hátt framlag úr Jöfnunarsjóði til „jöfnunar“ á þeim tekjum, þ.a. eftir þá „styrk“veitingu hafði sveitarfélagið 1,6-faldar fasteignaskattstekjur Reykjavíkurborgar og 2,3-faldar fasteignaskattstekjur Garðabæjar pr. íbúa.

Á regluverki Jöfnunarsjóðs eru ýmsir gallar. Meðal annars er við útreikning jöfnunarframlaga litið á lægri skattaálögur en hámarksheimildir kveða á um sem „vannýtta tekjustofna“ og er sveitarfélögum, sem leitast við að halda skattaálögum lágum, refsað með skerðingu á framlögum þrátt fyrir hlutfallslega há útgjöld vegna reksturs grunnskóla og málefna fatlaðra.

Hámarksheimildir sveitarfélaga til álagningar fasteignaskatts hafa ekki lækkað þrátt fyrir mikla hækkun fasteignamats undanfarin ár og er hætt við að jöfnunarframlög til sveitarfélaga, sem lækkað hafa álagningarhlutfall fasteignaskatts til að vega á móti þeirri hækkun, skerðist vegna þess að þau eru enn fjær því að „fullnýta tekjustofna sína“.

Þessi mismunun byggir hvorki á hlutlægum né málefnalegum grunni heldur vegur hún að þeirri sjálfstjórn sveitarfélaga sem þeim er falin samkvæmt íslensku stjórnarskránni.