Það er dyggð og góð venja að ganga vel um. Þetta reynum við flest að temja okkur og ala upp í börnunum okkar. Á bak við þann sjálf­saga og upp­eldi eru þó oftast ekki djúpar hug­mynda­fræði­legar á­stæður. Það er ein­fald­lega það sem við vitum flest að er rétt að gera, bæði fyrir okkur sjálf og aðra. En að huga af alúð að sínu nánasta um­hverfi er einnig hluti af sátt­mála til þess að stuðla að góðu og mann­vænu sam­fé­lagi, og ekki síst að finna leiðir til þess að nýta auð­lindir okkar á sjálf bæran, arð­bæran og á­byrgan hátt.

Merkasta fram­lag okkar Ís­lendinga í um­hverfis­málum felst í þekkingu, færni og reynslu af því að nýta um­hverfis­vænar lausnir. Drif­krafturinn á bak við slíkar lausnir er efna­hags­legur og yfir því hafa ýmsir séð of­sjónum í gegnum tíðina. Einka­fram­tak í hagnaðar­skyni og um­hverfis­vernd eru ekki and­stæður. Einka­fram­takið, drif­kraftur markaðarins, er þvert á móti for­senda þess að við náum metnaðar­fullum mark­miðum í lofts­lags­málum. Þar getum við Ís­lendingar gegnt lykil­hlut­verki.

Sagan kennir okkur

Þegar horft er til langs tíma skiptir mestu máli að til staðar sé sátt­máli sem allir virða. Sjálf­stæðis­stefnan byggist á því að nýta frum­kvæði og drif­kraft ein­stak­linga sem keppast á frjálsum markaði við að nýta auð­lindir sem best innan sann­gjarns ramma laga. Sagan kennir okkur að sam­keppni á markaði um sí­fellt betri nýtingu auð­linda er heilla­drýgri fyrir bæði um­hverfi og efna­hag en mið­stýrð á­ætlana­gerð.

Það er sið­ferðis­leg skylda okkar Ís­lendinga að ganga af skyn­semi og alúð um hið fal­lega og gjöfula um­hverfi sem okkur er falið til varð­veislu. Þótt engar lausnir séu full­komnar og ýmsir brestir geti átt sér stað, þá vitum við að besta leiðin er að nýta krafta einka­fram­taks og markaðs­frelsis. Þannig getum við á­fram verið til fyrir­myndar í um­hverfis­málum.

Höfundur er hrl., LL.M. í auðlinda- og alþjóðlegum umhverfisrétti, aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og frambjóðandi til 3. sætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.