Sjálf­stæðis­menn veifa nú vinstri grýlunni af miklum móð og segja kosningarnar í næsta mánuði snúast um það helst að af­stýra því að hér setjist að völdum vinstri stjórn. Þeir segja að einungis at­kvæði greidd Sjálf­stæðis­flokknum séu at­kvæði gegn vinstri stjórn.

Nú síðast geystist Brynjar Níels­son fram á völlinn og lýsti á Face­book á­hyggjum sínum yfir því að Sjálf­stæðis­flokkurinn væri ekki lengur sama breið­fylking og hann eitt sinn var og fylgi flokksins hjá yngra fólki væri í sögu­legu lág­marki, hann hefði á­hyggjur af því að veikur Sjálf­stæðis­flokkur væri á­vísun á vinstri stjórn.

Ein­kenni­legt er að Brynjar skuli óttast svo mjög vinstri stjórn, vegna þess að hann styður nú­verandi vinstri stjórn Katrínar Jakobs­dóttur og Sjálf­stæðis­flokkurinn er vitan­lega burðar­ás hennar.

Ekki skiptir öllu máli fyrir Brynjar, Bjarna Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra í ríkis­stjórn Katrínar Jakobs­dóttur, og annað for­ystu­fólk Sjálf­stæðis­flokksins, hvort stjórnar­stefna ríkis­stjórna sem flokkurinn situr í er til hægri eða vinstri. Öllu máli skiptir að fram­fylgja eina málinu sem flokkurinn berst fyrir – að standa vörð um sér­hags­muni hinna sterku í ís­lenskum sjávar­út­vegi.

Í gegnum tíðina hefur flokknum tekist þetta bæri­lega en her­kostnaðurinn er sá að Sjálf­stæðis­flokkurinn er ekki lengur breið­fylking. Hann er eins máls flokkur sem skreppur sí­fellt saman vegna þess að þetta eina mál fer gegn vilja yfir­gnæfandi meiri­hluta þjóðarinnar, sem vill að markaðurinn verð­leggi af­nota­rétt af þjóðar­auð­lindinni fremur en að ör­fáir aðilar fái hana í sínar hendur nær endur­gjalds­laust. Kjós­endur velja al­manna­hags­muni fremur en sér­hags­munina sem Sjálf­stæðis­flokkurinn stendur vörð um. Kjós­endur snúa í vaxandi mæli baki við flokknum sem einatt snýr baki við þeim.

Nú þrá sjálf­stæðis­menn ekkert heitar en að sitja á­fram í vinstri stjórn undir for­ystu Katrínar Jakobs­dóttur næstu fjögur árin vegna þess að Vinstri græn eru með­færi­leg. Þeir leyfa sjálf­stæðis­mönnum að varð­veita sér­hags­muni hinna fáu og sterku í ís­lenskum sjávar­út­vegi. At­kvæði greitt Sjálf­stæðis­flokknum er á­vísun á á­fram­haldandi vinstri stjórn.