Það stefnir í langt verkfall hjá starfsmönnum Eflingar í Reykjavíkurborg. Það er ekkert í kortunum sem mun stöðva baráttu Sólveigar Önnu Jónsdóttur verkalýðsforingja. Auk þess situr verkalýðsfélagið á digrum verkfallssjóði, hann var tæplega 2,8 milljarðar króna við árslok 2018 og getur því stutt við bakið á þeim 1.800 félagsmönnum sem eru í verkfalli nokkuð lengi.

Engu að síður verður forysta Eflingar að gæta sín á að launahækkanir í borginni muni ekki bitna á félagsmönnum í öðrum störfum. Það liggur í augum uppi að verði gengið að kröfum Eflingar mun höfrungahlaup hefjast, verðbólga fer á skrið, lífskjarasamningurinn raknar upp og fyrirtæki munu mæta auknum launakostnaði með uppsögnum. Forysta Eflingar verður að horfast í augu við samhengi hlutanna.

Eflingarfólk þarf að hafa hugfast að verkföll í leikskólum bitna einkum á venjulegum fjölskyldum í Reykjavík. Það er ekki verið að vængstýfa atvinnulífið svo heitið geti eins og sumir kunna að telja sér trú um. Foreldrar þurfa að taka frí frá vinnu og dragist verkfallið á langinn munu margir neyðast til að vera í launalausu fríi. Það mun koma verst niður á þeim sem eiga erfitt með að ná endum saman og búa ekki að sterku baklandi til að aðstoða við barnapössun. Eflaust eru einhverjir félagsmenn í Eflingu í þeim hópi.

Það má öllum vera ljóst að um hættuspil er að ræða. Háskólamenntaðir leikskólakennarar munu ekki sætta sig við það að fá sambærileg laun og ófaglærðir. Aukin menntun hefur bætt leikskólastarfið og mikilvægt er að umbuna kennurum fyrir að ganga menntaveginn svo halda megi áfram á þeirri braut. Á sama tíma er Bandalag háskólamanna með lausa kjarasamninga, margir félagsmenn eru ósáttir við kjör sín og munu krefjast verulegra launahækkana gangi atlaga Eflingar eftir.

Á Íslandi eru greidd ein hæstu laun í heimi. Til að halda þeirri stöðu þarf að skapa fyrirtækjum heilbrigt umhverfi til að fjárfesta í rekstrinum. Há verðbólga, sem er fylgifiskur höfrungahlaupsins, mun draga úr vilja til að fjárfesta og leiðir til þess að Seðlabankinn þarf að hækka stýrivexti. Það mun draga enn frekar úr getu atvinnulífsins til að byggja sig upp. Afleiðingin verður að efnahagslífið mun með tíð og tíma ekki geta staðið undir jafnháum launum og nágrannaþjóðir okkar.

Það er nefnilega auðvelt að glutra niður góðri stöðu. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri hættu að allt fari á hliðina. Sjálfskaparvítin eru víða.