Samfélagsleg ábyrgð á að vera hluti af rekstri allra fyrirtækja sem stefna á að dafna til lengri tíma. Umhverfismálum, stefnumótun, starfsmannamálum, sölu- og markaðsmálum, stjórnarháttum vöruþróun og í raun öllum flötum fyrirtækja þarf að sinna af ábyrgð og með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í fjöldamörg ár þurfti að hafa mikið fyrir því að útskýra fyrir íslenskum fyrirtækjum að samfélagsleg ábyrgð snérist síður en svo um það hver gæfi hæstu fjárhæðirnar til góðgerðarmála. Sem betur fer er íslenskt viðskiptalíf komið yfir þá hugsunarvillu og fyrirtæki farin að nálgast málaflokkinn á heilstæðan og markvissari máta.

Þátttaka fyrirtækja í uppbyggingu samfélagsins sem þau starfa í og þróunarstarfi getur verið stór hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja. Öll fyrirtæki þurfa að eiga í heiðarlegum og góðum samskiptum við nærsamfélag sitt og fjölmörg fyrirtæki hafa þar að auki margt fram að færa þegar það kemur að alþjóðlegu þróunarstarfi. Það hvernig fyrirtæki nálgast samstarf við nærsamfélag sitt og þróunarstarf þarf þó að gera á skipulegan og markvissan máta.

Án þess að setja sér skýr markmið og stefnu er þó erfitt að hámarka þann mikla ávinning sem samstarfi á þessum vettvangi getur fylgt. Í dag höfum við Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna sem áttavita þegar að samfélagslegri ábyrgð kemur. Öll fyrirtæki ættu því að geta róið í sömu átt og sammælst um það hvað þurfi að gera til þess að vera ábyrg og stuðla að sjálfbærri þróun. Þetta á við um fyrirtæki af öllum stærðargráðum. Heimsmarkmiðin eru nefnilega hönnuð með það að leiðarljósi að hjálpa viðskiptalífinu í heild sinni við að stilla aðgerðir sínar í tóntegund sjálfbærrar þróunar. Með Heimsmarkmiðunum og stefnumiðaðri nálgun í sínum aðgerðum geta öll fyrirtæki stuðlað að hámarks ávinningi fyrir alla hagsmunaaðila. Eigendur, fjárfestar, starfsmenn, fjölskyldur, umhverfið, birgjar og yfirvöld eiga nefnilega öll að njóta góðs af því hvernig fyrirtæki eru rekin.

Mig langar að hvetja öll fyrirtæki til þess að hugsa sig vel um þegar þau fara í samstarf við aðila í nærsamfélögum sínum eða í þróunarstarfi og leiða hugann að því hvernig ákvarðanir þeirra hjálpa öllum hagsmunaðilum að dafna og stuðla þannig að sjálfbærri þróun. Hvert fyrirtæki hefur sína styrkleika og getur með skýrum og markvissum aðgerðum stuðlað að því að byggja upp samfélag sem ábyrgist velfarnað komandi kynslóða án þess að skerða þarfir samtíðarinnar.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Marel.

Greinin er skrifuð í tilefni átaksins Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum félagasamtaka er starfa í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu í samstarfi við utanríkisráðuneyti. Markmið átaksins er að hvetja fyrirtæki, stór sem smá, að taka þátt í þróunarsamvinnu og vinna þannig markvisst að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.