Innan við helmingur landsmanna er hlynntur frjálsræði í innflutningi á landbúnaðarvörum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Afstaða landsmanna til málsins hefur lítið hreyfst á þeim átta árum sem liðið hafa frá síðustu könnun blaðsins, en í samanburðinum hefur áhugi Íslendinga á því sem ræktað er og framleitt annars staðar í heiminum minnkað, ef eitthvað er.

Þetta er undarleg þróun á viðhorfum landsmanna til eigin lífsgæða enda hefur ferðalögum þeirra til útlanda síður en svo fækkað síðan árið 2014 og við ættum að vera ágætlega meðvituð um að íslenskur matur er langt því frá betri en franskur, danskur, spænskur og ítalskur matur.

Það er með þetta eins og svo margt annað. Það sem Íslendingar heillast hvað mest af á ferðum sínum erlendis vilja þeir alls ekki sjá þegar heim er komið. Við göngum uppnumin um þröngar götur, þéttar byggðir og fallegar gróðurvinjar erlendra miðborga og hoppum um í strætóum og lestum án vandkvæða. Þegar heim er komið brunum við á negldum einkabílnum í bæinn og kvörtum undan því að öll bílastæði í miðborg Reykjavíkur séu horfin.

Á vappi um glæsilegar matvöruverslanir á Spáni eða Ítalíu er eins og ekki hvarfli að okkur að spyrja af hverju við njótum ekki sama úrvals gæða og vöruverðs heima á Fróni. Við fyllum bara körfuna af mat og drykk á hálfvirði og lifum í lystisemdum þangað til við lendum með braki og brestum í norðangarranum í Leifsstöð.

Eftir að heim er komið fúlsum við svo við hvers kyns fínirí, tilboðum, frelsi og fjölbreytni, þangað til splæst er í næstu hvíldar­innlögn. Hjá sumum okkar kostar lítri af vatni 5 evrur á bensínstöð. Og við borgum það stolt, eins og okrið sé einhvers konar sönnun á sjálfstæði þjóðarinnar.

Á næstu dögum og vikum stefna fjölmargir Íslendingar til útlanda til að njóta sumarleyfis, liggja í sólbaði, rölta um falleg og framandi stræti og njóta góðs matar sem sjaldan er á boðstólum á Íslandi. Því ekki að nota ferðina sem vettvangsferð í leiðinni, hugsa hlýlega heim og til þeirra tækifæra sem við höfum enn ekki til gripið, til að bæta samfélagið okkar og lífsgæði þeirra sem hér búa?