RÚV ræður leiktíma leiks Íslands og Hvíta-Rússlands. Leikurinn fer fram klukkan 17.30 í dag en þegar þetta er skrifað eru um 3.300 miðar farnir en völlurinn tekur um 10 þúsund manns. Það vantar því sjö þúsund manns til að fylla völlinn.

KSÍ auglýsti mikið á samfélagsmiðlum í aðdraganda leiksins en fór ekki hinar hefðbundnu leiðir, að auglýsa í dagblöðum og á öldum ljósvakans.

Það er því ekki furða að enginn sé að mæta á leikinn í dag því það er gömul saga og ný að fólk sem lifir sínu lífi í gegnum símann er ekki mikið að borga sig inn á viðburði – þó að það hafi skoðun á ýmsu.

Skammið RÚV

„Ég held að leiktíminn hafi ekkert með mætingu að segja en þið verðið bara að skamma RÚV,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í gær en ástæðan fyrir þessum leiktíma er að RÚV sýnir beint frá tónleikum Sinfó strax eftir fréttir og veður.

Aðrir hafa bent á að miðaverð sé ástæðan en það kostar um 2.000 krónur fyrir börn yngri en 16 ára á fínum stað en þúsund kall fyrir verri stað.

Fimm manna fjölskylda þarf því að leggja út 14 þúsund krónur ef hún vill sitja á góðum stað. Og á þá allt hitt eftir ef hún vill eiga góðan dag.