Þegar heimspressan birti ljósmyndir af leikaranum Leonardo di Caprio í sæmilegum holdum varð hugtakið pabbakroppur til. Það vísar til karlmanns sem er svolítið búttaður, jafnvel skriðinn yfir þrítugt, samt flottur. Næstur í stigveldi flottra karla er svo silfurrefurinn. Hann er gjarnan skriðinn yfir fimm eða sex tugi, samt flottur.

Þessi ímynd speglast í kvik­mynd­unum sem draumaverksmiðjan í Hollywood framleiðir fyrir okkur. Njósnari hennar hátignar hefur til að mynda hneigðir til talsvert yngri kvenna, en mesti aldursmunur karlhetju og kvenhetju í Bond-mynd er 29 ár.

Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar heimsins birt ljósmyndir af söguhetjunum og vinkonunum Carrie, Charlottu og Míröndu, við upptökur framhaldsþátta Beðmála í borginni. Sem betur fer hafa þær elst svolítið frá árinu 1998, annars væru þær tæpast á lífi.

Fréttir heimspressunnar hafa þó ekki fjallað um mömmukroppa eða silfurtófur. Umfjöllunarefnið er annað hvort hrukkur leikkvenna eða grá rót. Efni sem sannarlega stöðvar prentvélarnar. Aðrar fréttir fjalla um lýtaaðgerðir einnar leikkonunnar, sem þykja svo svakalegar að fréttafólki liggur við andnauð.

Skilaboðin eru óljós. Hvort er verra að eldast náttúrulega eða með aðstoð lýtalækna? Það myndi auðvelda konum að beina útlits­komplexunum í réttan farveg að fá þetta á hreint.

Á meðan söguhetjan Herra Stór safnaði í krúttlegan pabbakropp, kannski líka hækkandi kollvik og vaxandi skallablett, urðu skvísurnar í Beðmálunum fimmtugar. Bara si svona. Því ber að fagna.