Ég hef deilt húsnæði með silfur­skottum á ýmsum stöðum í gegnum tíðina. Þótt þær ættu á blaði að vera ógeðslegar þá hefur samlífi okkar aldrei stuðað mig neitt sérstaklega. Það er eiginlega frekar að ég fari í taugarnar á þeim, enda flýja þessi grey mig eins og ég sé foreldri að koma heim að blindfullum menntaskólabörnum í hvert skipti sem ég kveiki ljósið á baðherberginu. Draumurinn um að silfurskotturnar aðstoði mig við að gera mig kláran á morgnana eins og skógardýrin aðstoðuðu Mjallhvíti við húsverkin er því enn langt undan.

Ástæða þess að þetta hús­töku­lið hefur fengið mun mýkri meðferð en önnur sambærileg skordýr hlýtur að vera hve falleg nafngift þeirra er. Silfurskotta er einstaklega pent heiti og hljómar einna helst eins og hluti af þjóðbúningnum eða aðalpersóna í barnabók um refi. Ef þær gengju undir ógeðfelldara nafni eins og veggjadröngull eða húsnjálgur finnst mér ólíklegt að mér stæði á sama um silfurskotturnar sem meðleigjendur. Það er ekki ólíklegt að nafngiftin hafi þannig bjargað þeim frá símtölum við meindýraeyðinn á fleiri heimilum en mínu eigin.

Litað tungumál einskorðast ekki við skordýr þótt það sé vissulega hægt að færa rök fyrir því að hrossaflugan nyti meiri virðingar ef hún gengi undir nafninu leggjadrottning. Það er spurning hversu stór hluti skoðana okkar á hinu og þessu er mótaður af misjafnlega hagyrtum kotbændum á öldum áður eða foreldrum sem vildu vera frumlegir þegar kom að því að skíra barn sitt.