Þessi þjóð hefur lengi glímt við að nýta lífverur sér til viðurværis. Sögur segja að hingað hafi Norðmenn flutt forðum, því þeim líkaði ekki harðstjórnarfar Haraldar hárfagra Noregskonungs. Það má vera að sú hafi verið ástæðan fyrir að karlar og konur tóku sig upp og fluttu hingað norður á hjara.

En hvað sem því líður þá kom í ljós að fyrir ströndum landsins voru þá og eru enn fengsæl fiskimið. Þannig er það víða þar sem hafstraumar mætast og allra best er þegar þeir eru hlýir og kaldir.

Hægt gekk að byggja upp landið og landsmenn skiptust í tvo hópa eftir viðfangsefnum, annar sinnti landbúnaði og hinn sjávarútvegi og einstaka sinnti hvoru tveggja.

Þannig hafa Íslendingar vanist því að sækja á auðlindir landsins og nýta þær sér til framfærslu. Segja má að þeir sem sóttu sjóinn hafi snemma uppgötvað að auðlindin syndir inn og út úr færi til þess að nýta hana. Byggð landsins lagaði sig að þessu og þéttbýli myndaðist þar sem styttra var á miðin. Fólk byggði upp áður fáfarna kima landsins til að minnka fyrirhöfnina við sjósóknina. Það er því ekkert nýtt að „síldin komi og síldin fari“. Að því hafa þeir sem sækja sjóinn þurft að laga sig um aldir og ár.

Þegar síldin fór á sjöunda áratugnum hafði verið staðið fyrir uppbyggingu víða til að vinna gull úr silfri hafsins. Eftir stóðu minnisvarðar um glæstar vonir sem ekki urðu að veruleika og um það vitna verkefnalaus mannvirki jafnt í Djúpavík og á Hjalteyri.

En svo bættist nýr atvinnuvegur við, ferðaþjónustan. Eiginlega fyrst af alvöru eftir Eyjafjallajökulsgosið, jafnvel þótt fyrir það hafi reytingur af erlendu ferðafólki lagt hingað leið sína. Og þegar best gekk skilaði ferðaþjónustan meiri tekjum í þjóðarbúið en nokkur annar atvinnuvegur. Meira að segja sókn á gjöful fiskimiðin, þar sem þekkingu og tækni er beitt samhliða til að nýta þá auðlind sem best, stóðst ekki ferðaþjónustunni snúning.

Áður en við var litið höfðu íbúðar- og atvinnuhús fengið nýtt hlutverk og voru orðin gistihús. Önnur voru rifin og byggð hótel. Veitingastaðir spruttu upp víðs vegar, nýir áfangastaðir sem enginn þekkti urðu fjölfarnir. Allt lék í lyndi.

Svo kom veiran og síldin fór.

En þessi síld hagar sér öðru vísi en sú forðum. Þessi síld bíður þess að fá að fara um höf og lönd á ný. Sá dagur kemur brátt að hún lætur á sér kræla aftur. Þá er betra að ekki hafi verið gengið svo um að hefja þurfi uppbyggingarstarf í ferðaþjónustunni á ný frá grunni.

Um allt land eru fyrirtæki sem eru á heljarþröm af tekjuleysi þrátt fyrir björgunaraðgerðir stjórnvalda. Hótel eru í greiðsluskjóli, starfsmenn veitingahúsa að leita í aðrar greinar og ýmiss konar ferðaþjónustustarfsemi í uppnámi. Og áhrifin af þessu ná miklu víðar en til ferðaþjónustunnar einnar.

Nú þegar hillir undir að takist að ráða niðurlögum faraldursins verðum við að tryggja að ferðamennirnir hafi að einhverju að hverfa þegar þeir loks koma á ný.