Fáar opin­berar skrár hafa sætt eins um­fangs­mikilli endur­skoðun undan­farinn ára­tug, með jafn dapur­legum árangri, og stjórnar­skrá lýð­veldisins.

Saga þessarar endur­skoðunar hefur verið skraut­leg á köflum, með eftir­minni­legri en heldur ó­spennandi kosninga­bar­áttu 523 fram­bjóð­enda til stjórn­laga­þings og vægast sagt ó­væntum af­skiptum Hæsta­réttar af lýð­ræðis­legum kosningum.

Gríðar­legur fjöldi til­lagna og frum­varpa liggur fyrir eftir mikla vinnu kjörinna full­trúa í stjórn­laga­ráði, fjölda nefnda og allra sér­fræðinganna sem virðast enda­laust til í að vinna fyrir hverja nefndina á fætur annarri. Líkt og sér­fræðingarnir hefur ís­lenskur al­menningur í­trekað verið virkjaður til starfa með boðun til þjóð­fundar, til þjóðar­at­kvæða­greiðslu, þátt­töku í rök­ræðu­könnun og alls kyns sam­ráði. Ekki verður þó séð að til sam­ráðs sé alltaf boðað í því skyni að þoka málum á­fram eða að af­stöðu þátt­tak­enda sé bein­línis tekið opnum örmum.

Þeir sem standa fyrir allri þessari vinnu virðast þó minnstan á­huga hafa á að hún beri ein­hvern árangur; sjálfir stjórn­mála­mennirnir. Í­haldið af því það kærir sig ekki um stjórnar­skrár­breytingar yfir höfuð og frjáls­lyndið af næstum þrá­hyggju­kenndu trygg­lyndi við frum­varp stjórn­laga­ráðs.

Eftir ára­tug af þessari störu­keppni hlýtur að fara að verða ó­hætt að lýsa sigri í­haldsins, sem kann vonandi vel að meta þá hnaus­þykku brynju gegn stjórnar­skrár­breytingum sem frum­varp stjórn­laga­ráðs er orðið að.

Á meðan stjórn­mála­menn dunda sér við að veita ís­lenskunni stjórnar­skrár­vernd og semja yfir­lýsingar um ó­snortin víð­erni og auð­lindir í þjóðar­eign, þarf mikill meiri­hluti ís­lenskra kjós­enda að sætta sig við mun lakari lýð­ræðis­rétt en minni­hlutinn. Þetta mis­vægi at­kvæða hefur djúp á­hrif á stjórn­mála­líf í landinu og stuðlar í­trekað að töku ó­vandaðra á­kvarðana.

Stjórnar­skrár­á­kvæði um for­setann og ríkis­stjórnina hafa legið ó­snert í bráðum heila öld með þeim af­leiðingum að enn þarf að­eins 1.500 með­mælendur til að lýsa fram­boði til em­bættis for­seta, sem er sami með­mælenda­fjöldi og árið 1944 þegar Ís­lendingar voru 127 þúsund. Vegna þess hve fjar­læg á­kvæðin um hlut­verk for­seta eru raun­veru­leikanum, fer kosninga­bar­átta fyrir for­seta­kjör iðu­lega í að ræða per­sónu­legar skil­greiningar fram­bjóð­enda á em­bættinu og fram­bjóð­endur hika ekki við að lofa að haga sér eins og ein­ræðis­herrar nái þeir kjöri.

Á­kvæði stjórnar­skrárinnar um ráð­herra eru litlu skárri en þar er sára­lítið vikið að skyldum þeirra gagn­vart þjóð og þingi. Þá er á­hrifa­leysi stjórnar­skrárinnar á á­byrgðar­til­finningu ráð­herra nánast al­gert eins og sagan sýnir. Svo mætti lengi telja um að­kallandi breytingar á stjórnar­skrá.

Nú styttist í að flokkarnir leggist undir feld og hugi að mál­efna­starfi fyrir næstu kosningar. Eftir tíu ára árangurs­laust streð er tíma­bært að staldra við, meta af­raksturinn og á­kveða hvort við látum ó­snortin víð­erni og ís­lenskunnar heilaga vé duga í bili eða hvort við reynum nýjar leiðir.