Ég jarðsöng mikinn höfðingja í Garðabænum fyrir nokkru síðan. Fólkið hans sagði mér að þegar honum var mikið niðri fyrir þá signdi hann sig gjarnan. Auk þess hafði hann sérstakt ritúal þegar hann gekk til hvílu á kvöldin. Þá stóð hann við vegginn með öllum fjölskyldumyndunum, fór með sínar fyrirbænir og signdi svo yfir hverja mynd. Ég á líka minningu af því að Gústav afi minn, sem ekki var sérlega kirkjurækinn maður, hafði þann háttinn á að signa alltaf yfir útidyrnar áður en hann fór að sofa. Mörg okkar eiga þá minningu að vera sem börn merkt krossinum áður en okkur var hjálpað í nærbolinn.

Kristnir menn hafa fundið vernd og blessun í signingunni. Hún er tákn um auðmýkt. Tákn um traust á Guði og viðurkenning á því að maður getur ekki allt. Sönn auðmýkt vanmetur ekki hið góða sem býr í fólki. Auðmýkt er þekking á þeim styrk sem felst í vanmætti. Þess vegna segja kristnir menn söguna af barninu sem fæddist við óblíðar aðstæður og söguna af honum sem hvorki gerði árás né flúði fyrir óvinum sínum, heldur stóð kyrr í sannleikanum allt til dauða á krossi. Hefði Jesús dregið öll sín orð um kærleika og réttlæti til baka gegn hagstæðum starfslokasamningi væri enginn að signa sig í dag.

Sannur kjarkur hvílir í auðmýkt og á ekkert skylt við kokhreysti. Hvað þá fífldirfsku. Við sjáum oft knattspyrnumenn frá suðrænum slóðum signa sig þegar þeir ganga inn á völlinn. Við eigum líka þá hefð að signa yfir kistuna þegar ástvinur leggur í sína hinstu för. Þannig tjáir kristið fólk auðmjúkt traust; styrkinn í vanmættinum, vonina í lífi og dauða og biður fararheilla í þeirri trú að Guð muni vel fyrir sjá.