Sjald­gæft er að nefndar­starf fangi at­hygli al­mennings. Á þessu eru þó undan­tekningar, siða­nefnd Al­þingis er lent í hringiðu um­ræðunnar, áður en hún hefur tekið til starfa. Reyndar er vand­ræða­gangur Al­þingis við að koma málum til siða­nefndarinnar al­gert bíó, hef kveikt á Al­þingis­rásinni, kók og popp með. 

En hvert er hlut­verk og til­gangur siða­nefndarinnar? Hún hefur ekkert vald til að gera eitt eða neitt, eina sem hún á að gera er að taka af­stöðu til þess hvort þing­menn hagi sér sið­lega. En fyrir hvern er sú niður­staða fengin? 

Er það virki­lega svo að kjós­endur þurfi sér­staka fræðinga­nefnd til að finna út úr því hvort t.d. sið­laust fyllirísraus þing­manna á bar sé sið­laust eða ekki? Ég held að al­menningur sé full­fær um að leggja mat á sið­ferði þing­manna og láta skoðun sína í ljós í kosningum. Þetta er hluti af því sem í dag­legu tali er kallað lýð­ræði og það þarf enga nefnd á vegum Al­þingis til að út­skýra sið­ferði fyrir al­menningi. Sið­ferði sér­fræðinganna er hvorki dýpra né merki­legra en sið­ferðis­vitund al­mennings. 

En það verður samt spennandi að fylgjast með störfum siða­nefndarinnar. Mun hún t.d. komast að þeirri niður­stöðu að al­mennt séð hafi Klausturstalið verið ó­sið­legt eða mun nefndin fara yfir ein­stök um­mæli og meta þau sér­stak­lega? Þetta skiptir máli því nú liggur fyrir krafa um að siða­nefndin taki á því hvort þing­menn Pírata megi þjóf­kenna aðra þing­menn, má segja þjófur? Kannski birtir nefndin lista yfir þau orð sem þing­menn mega ekki nota hverjir um aðra á opin­berum vett­vangi. 

Það yrði á­huga­vert.