Fyrsti singúll Bítlanna, Love me do, kemur út en sveitin slær þó ekki í gegn fyrr en árið eftir. Ellý Vilhjálms skemmtir gestum í Glaumbæ, Marilyn Monroe finnst látin á heimili sínu, John F. Kennedy er forseti Bandaríkjanna og Ásgeir Ásgeirsson hefur setið á forsetastóli hérlendis í áratug. Og menn höfðu aldrei stigið fæti á tunglið.

Heimurinn árið 1962 var annar en við þekkjum hann í dag, á tæpum sex áratugum má segja að allt hafi breyst og þá ekki síst fjölskylduformið sem á þeim tíma var sirka: Mamma, pabbi, barn og bíll. Hjónaskilnaðir, sem þá voru ekki aðeins sjaldgæfir heldur fylgdi þeim ákveðin skömm, þykja í dag varla tiltökumál. En þrátt fyrir þessar stórkostlegu breytingar á því hvernig við lítum á fjölskylduna, hjónabandið og barneignir, þá búum við enn við hjúskaparlög sem sett voru árið 1962, þegar Bítlarnir voru ekki orðnir frægir og menn vissu ekkert hvernig umhorfs er á tunglinu.

Í helgarblaði Fréttablaðsins um síðustu helgi mátti lesa frásögn Heiðu Bjargar Scheving sem missti sambýlismann sinn til þrettán ára skyndilega. Þau voru ógift og áttu ekki börn saman svo systkini hans erfðu hann til fulls. Þau fóru fram á að Heiða væri borin út af sameiginlegu heimili þeirra sem jafnframt var vinnustaður þeirra beggja og skaffaði þeim lífsviðurværi. Þau höfðu ætlað að ganga í hjónaband en hann lést áður en af því varð og hún því algjörlega réttindalaus þegar kom að því að skipta eignum hans.

Hún ákvað að láta reyna á málið fyrir dómstólum sem komust að þeirri niðurstöðu að hún ætti rétt á helmingi eigna hans en beðið er niðurstöðu áfrýjunar til Landsréttar. Niðurstaðan var sannarlega eins góð og hún þorði að vona en frá fráfalli manns hennar hefur hún staðið í stappi til að ná fram rétti sínum. Þeim tíma hefði hún líklega viljað verja í annað, fá frið til að syrgja maka sinn og byggja líf sitt upp að nýju.

Samkvæmt Hrefnu Friðriksdóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, er full ástæða til að endurmeta hjúskaparlögin og getum við horft til hinna Norðurlandanna í þeim efnum, þar sem hafi verið meiri umræða og breytingar. Umræðan er að minnsta kosti klárlega þörf. Þó svo að vel megi vera að nauðsyn krefji að munur sé á sambúð og hjónabandi þá er mikilvægast að fólk sé meðvitað um hvað það felur í sér að velja annan kostinn.

Sambúðarfólk getur aldrei tryggt sér sambærilegan rétt og fólk sem er í hjúskap samkvæmt lögum. Það er staðreynd sem við verðum að vera meðvituð um enda sögur eins og Heiðu Bjargar alltof algengar.

Við viljum eðlilega lítið hugsa út í það að við gætum skyndilega fallið frá, það er flestum okkar framan af fjarlæg staðreynd.

En hún er það samt – staðreynd.