Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur þótti drykkfelldur meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn á 19. öld. Drykkjuskapur var alvanalegur í þessum hópi og margir góðir drengir drekktu sér fullir í síkjum borgarinnar. Jónas orti falleg erfiljóð um þessa ungu félaga sína en breytti engu um eigið líf.

Vinir hans stofnuðu bindindisfélag til að fá hann til að hætta að drekka en allt kom fyrir ekki. Í lok maímánaðar 1845 datt hann fullur í bröttum stiga og andaðist nokkru síðar.

Ári seinna andaðist skáldbróðir Jónasar, Sigurður Breiðfjörð, úr eymd og drykkjuskap í miðbæ Reykjavíkur. Báðir lofsungu þeir vímuna sem dró þá til bana á besta aldri.

Ungur kynntist ég áfengi og töfraljómanum og blekkingavefnum í kringum Bakkus. Þegar vandamálin fóru að knýja dyra fór ég í afneitun og lét allar aðfinnslur eins og vind um eyrun þjóta. Smám saman dugði afneitunin ekki til lengur og ég neyddist til að horfast í augu við sjálfan mig. Nú á dögunum voru 16 ár síðan ég hætti að drekka í þessari lotu. Ævi mín gjörbreyttist við þessa ákvörðun og mér tókst að eignast líf sem hefði verið óhugsandi fyrir galeiðuþræl Bakkusar konungs.

Jónas og Sigurður vitjuðu mín í draumi á dögunum og sögðust vera brakandi edrú fyrir handan.

„Betra er seint en aldrei,“ sagði Sigurður og glotti svo skein í tannlausa gómana.

Jónas flissaði og mælti: „Við áttum eftir að yrkja okkar bestu ljóð.“ Síðan leiddust þeir inn í ljósið. Ég vaknaði, mundi drauminn og fór á morgunfund í AA-samtökunum.