Alltaf er jafn merkilegt verða vitni að því þegar stjórnmálamenn láta sig sérhagsmuni meira varða en almannahagsmuni. Einmitt þetta gerðist í síðustu viku í umræðum á Alþingi þegar tekist var á um það hvort heimila ætti beiðni um skýrslu þar sem gerður væri samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar sem naut stuðnings þingmanna Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata. Hún naut einnig stuðnings Andrésar Inga Jónssonar sem eitt sinn var þingmaður Vinstri grænna en er nú þingmaður utan flokka, eftir að hafa tekið sannfæringu sína fram yfir þá niðurlægingu sem þingmenn Vinstri grænna þurfa stöðugt að þola í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Þegar kemur að þessari skýrslubeiðni má samt vel gefa sér að ýmsir þingmenn Vinstri grænna hafi stutt hana í hjarta sér. Þeir hafa hins vegar ekki treyst sér til að sýna þann stuðning í orði. Slíkan stuðning þarf vitanlega að bæla niður ef hætta er á að Sjálfstæðisflokknum mislíki. Og þessi tillaga fór óskaplega fyrir brjóstið á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Hún var sögð vera leikaraskapur og lýðskrum.

Af hverju þessi illu orð um jafn sjálfsagðan hlut og að þessar greiðslur verði kannaðar, þannig að ljóst sé hvort þarna er um mikinn mismun að ræða? Heyrst hefur að Samherji greiði miklu hærra gjald í Namibíu en hér á landi. Af hverju má ekki upplýsa um réttar tölur? Ástæðan er vitanlega sú að Sjálfstæðisflokkurinn á í alveg sérstöku sambandi við stórútgerðina í landinu, hefur slegið skjaldborg um hana, dekrað við hana og beitt sér fyrir því að hún greiði til samfélagsins jafn lítið og hægt er að komast upp með. Þetta heitir að standa vörð um sérhagsmuni. Þessi stærsti flokkur landsins (hversu lengi sem hann verður það nú) reynir ekki á nokkurn hátt að leyna þessari sérhagsmunagæslu sinni. Hún blasir við öllum sem vilja sjá og forsvarsmenn flokksins eru síðan óhræddir við að minna reglulega á hana – þeir virðast fjarska stoltir af því að vera í hlutverki varðhunda stórútgerðarinnar.

Ansi mörgum hefur örugglega þótt ónotalegt að heyra Bjarna Benediktsson á þingi segja þessa skýrslubeiðni vera lýðskrum og að með henni væri verið að þyrla upp pólitísku moldviðri. Það er ekki svo ýkja langt síðan hann sagði að mál Samherja í Namibíu mætti rekja til þess að veikt og spillt stjórnkerfi væri þar í landi. Það virðist ljóst hvar samúð hans liggur.

Undanfarið hefur mátt heyra auglýsingar frá einum af stjórnmálaflokkum landsins, Viðreisn. Ein þeirra hljóðar svo: Við veljum almannahagsmuni, ekki sérhagsmuni. Þetta er gott kjörorð sem allir stjórnmálaflokkar landsins ættu heilshugar að taka undir. En það vilja þeir ekki allir. Innan Sjálfstæðisflokks myndi engum áhrifamönnum láta sér til hugar koma að auglýsa á þennan veg. Þeir vita nefnilega að þjóðin myndi ekki trúa þeim.