Eitt af því sem fylgir kollhnísum og reglulegum uppákomum tilverunnar er að orðaforði okkar og skilningur á alls konar hugtökum og framandi fyrirbærum eykst til muna fyrir vikið. Við verðum eins konar sérfræðingar í tíðarandanum, drekkum í okkur nýyrði og ræðum af ákefð.

Efnahagshrunið fyrir rúmum áratug var dæmi um þetta. Um skeið var nánast sama inn á hvaða kaffistofu landsins var litið, á milli þess sem rætt var um enska boltann og myndir af barnabörnum skoðaðar voru gengislán, skuldatryggingarálag og uppgjör slitabúa krufin af yfirgripsmikilli þekkingu.

Þetta gerðist líka þegar fréttir fóru að berast um starfsemi Samherja í Namibíu. Mikil og djúp innsýn myndaðist hér á landi í stjórnmálaástandið þar í landi og um tíma voru umræður í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni eins og þáttur af namibíska Silfrinu. Setningar eins og „Swapo-flokkurinn er nú ansi laskaður en þekkja kjósendur nokkuð annað?“ flugu á milli þess sem fólk stundi í nuddgræjunum.

Kórónaveiran hefur að sama skapi dýpkað orðaforða okkar. Þríeykið kenndi okkur strax í mars að við þyrftum að fletja kúrfuna og stefna að hjarðónæmi. Orðið hjarðónæmi hljómaði í fyrstu svolítið eins og lífsmottó manns sem hefur búið aðeins of lengi í Danmörku, gengur í leðurvesti að staðaldri og er með tagl en er samt fullkomlega ónæmur fyrir viðhorfum okkar hinna, hjarðarinnar. Fljótlega kom þó í ljós að hjarðónæmi er fyrirheitna landið sem við þráum öll, eins konar nirvana sóttvarnaheimsins. Þegar sóttvarnalæknar skemmta sér saman þá drekka þeir ekki áfengi og verða ölvaðir, þeir neyta bóluefna og öðlast hjarðónæmi.

Okkar Walter

Skömmu eftir að þríeykið varð að reglulegum heimilisgestum fékk þjóðin að kynnast Thor Aspelund og hans teymi sem opnaði hug okkar fyrir leyndardómum tölfræðinnar, hugtökum eins og smitstuðull, sviðsmyndir og veldisvöxtur. Þegar Breaking Bad þættirnir voru sem vinsælastir var gerð könnun meðal ungs fólks í Bandaríkjunum sem sýndi að flestir vildu læra efnafræði. Ég held að Thor sé okkar Walter White, ég myndi allavega skrá mig í tölfræði ef ég væri að velja mér háskólanám núna. Það er að minnsta kosti mjög líkleg sviðsmynd.

Atvinnulífið elskar ný orð. Þar var mikið endurskipulagt á árinu, fyrirtæki fóru í greiðsluskjól, fengu lokunarstyrki, brúarlán og hlutabætur. Á blaðamannafundi kynnti fjármálaráðherra að í fjárlögum yrði sveiflujöfnunarauki, útskýrði það reyndar ekkert frekar og allir kinkuðu kolli og létu eins og það væri eðlilegasti hlutur í heimi að taka einn sveiflujöfnunarauka svona fyrir hádegi.

Orð ársins á þessum heimi var þó án efa haghafi en samkvæmt öllum viðskiptafréttum eru haghafar nánast guðlegar verur sem þrífast á upplýsingum. Vel upplýstur haghafi er ánægður haghafi.

Farsóttarleiði og ferðavilji

Það er eitthvað svo fallegt við hvernig þessi nýyrði seytla út í tungumálið. Ég talaði við mann um daginn sem er af gamla skólanum, talar hreina íslensku og er almennt ekki mikið fyrir nein fínerísorð sérfræðinganna. Hann sagði mér hins vegar mjög einlægur á svip að hann hefði upplifað farsóttarleiða og væri kominn með sterkan ferðavilja.

Við eigum reyndar mikið undir því að ferðaviljinn breiðist út og að hingað komi ferðamenn, helst þessir betur borgandi.

Landamæraskimanir eru eitt af nýyrðum ársins en ég velti því fyrir mér hvort við ættum að halda þeim áfram eftir að veiran hverfur. Við myndum ekki lengur skima fyrir veirunni, heldur yrðu ferðamenn skimaðir efnahagslega þannig að strax við komu til landsins væri hægt að stöðva áhættuhópinn, skítblanka trjáfaðmara sem vilja helst bara lifa á hundasúrum í hálendisþjóðgarðinum. Þennan hóp þyrfti að setja strax í sóttkví eða jafnvel heimkomusmitgátt, það yrði sett í heiðarlega vinnu á Suðurnesjunum, fengi fræðslu um íslenska neyslusamfélagið og yrði alið á forboðnum ávöxtum hins íslenska skyndibitaheims; skinkubát á Nonna með auka beikoni, einni með öllu og í eftirrétt yrði nýliði ársins í sukkheiminum, þristamúsin. Hópnum yrði svo hleypt út í samfélagið aftur tveimur vikum síðar í góðum holdum, með heilbrigða þörf fyrir kolvetni og kaupmátt.

Guðlegar sóttvarnir

Á svona tímum lærast líka ný sannindi og lögmál. Til dæmis að lög Guðs séu æðri sóttvarnalögum mannanna, eins og biskup kaþólsku kirkjunnar útskýrði nýlega í fjölmiðlum með aðra höndina ofan í oblátuskálinni og hina í munni einhvers kirkjugestsins. Ekki smitskömminni fyrir að fara þar. Þetta vekur upp ýmiss konar guðfræðilegar spurningar, til dæmis hvort Guð forgangsraði ekki í þágu sóttvarna og ef hugsunin er tekin enn lengra má velta fyrir sér hvers vegna Guð hafi skapað kórónaveiruna en útsendarar hans á jörðu hvetji á sama tíma fólk til að safnast saman á samkomum. Á móti kemur að þá hefur Guð væntanlega líka skapað bóluefnið til að bjarga okkur. Gæti hann samt hnippt í þá Pfizer-bændur og sagt þeim að drífa þetta bóluefni áfram? Okkur liggur nefnilega á að komast til Tene – fyrirheitna lands Íslendinga.