Ekki er ofsagt að almenningur sé sleginn yfir upplýsingum í fréttaskýringarþættinum Kveik um viðskipti Samherja í Namibíu, en þar var fullyrt að félagið hefði greitt háttsettum mönnum í Namibíu meira en milljarð króna til að komast yfir kvóta. Myndin sem dregin var upp í Kveik var af gráðugum og forhertum mönnum sem svífast einskis til að fá sínu framgengt og víla ekki fyrir sér að arðræna heila þjóð, Namibíumenn. Séu upplýsingar þáttarins réttar, sem erfitt er að efast um, þá hefur Samherji brugðist íslenskri þjóð og skaðað orðspor landsins.

Þessi þáttur var sigur fyrir rannsóknarblaðamennsku en rothögg fyrir stórfyrirtækið Samherja. Stuttu eftir sýningu þáttarins kom yfirlýsing frá Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja. Af henni mátti ráða að forráðamenn Samherja væru jafn slegnir og dolfallnir yfir upplýsingum þáttarins og þjóðin sjálf. Þeim fannst skelfilegt til þess að vita að aðalviðmælandi Kveiks, Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hefði gengið laus í Namibíu, vaðið þar uppi og stundað alls kyns ólöglega starfsemi og mútað áhrifamönnum meðan þeir sjálfir hafi verið algjörlega grandalausir hér heima.

Allt svínaríið sem flett var ofan af í þættinum átti semsagt að vera verk eins manns sem, að sögn Samherja, hafði vitanlega alla tíð verið ómögulegur starfsmaður. Ekki verður sagt að þessi skýring Samherja komi á óvart – ólíkt ýmsum upplýsingum sem Kveikur birti. Samherji kaus að velja þá alræmdu aðferð að skjóta sendiboðann. Oft hefur það dugað en ekki er ástæða til að ætla að það eigi við hér. Í stað þess að stunda þann ljóta leik hefðu forsvarsmenn fyrirtækisins vel getað mætt Kveiksmönnum í þættinum og svarað hinum alvarlegu ásökunum sem á þá eru bornar. Yfirlýsing Samherja í kjölfar þáttarins er ómerkilegt og máttlaust klór í bakkann. Sjálfsagt verður margslungnari skýring göldruð fram í bakherbergjum Samherja innan skamms.

Í stað þess að mæta fréttamönnum Kveiks og svara fyrir alvarlegar ásakanir varð Þorsteinn Már að þola það að vera sýndur í þættinum á hlaupum undan þeim og tökumanni. Einstaklingar sem reyna að forða sér þegar fréttamaður spyr spurninga og stynja upp nokkrum setningum um veðrið og segjast vera á leið í kaffi virka ekki sérlega traustvekjandi. Það er mjög auðvelt að álykta sem svo að þeir hafi eitthvað að fela.

Jafn alvarlegt mál og þetta má ekki hljóta sömu örlög og svo mörg önnur þar sem fjaðrafok verður í nokkra daga en deyr síðan drottni sínum hægt og hljótt. Reyndar er íslenskur almenningur líklegri til að standa vaktina en stjórnmálamennirnir sem sumir hverjir munu ekki sjá hag sinn í því að halda málinu vakandi. Þeir virðast hafa meiri áhuga á að lækka veiðigjöld á stórfyrirtæki eins og Samherja.

Mál Samherja þarf að rannsaka ofan í kjölinn og ef það sem Kveiksþátturinn sýndi reynist rétt vera þarf að draga þá seku til ábyrgðar í réttarsal. Þannig verður réttlætinu þjónað.