Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 á að koma út eftir 2 vikur, ef allt gengur tímanlega. Þar verður sennilega margt forvitnilegt að finna, en í ljósi sögunnar ættum við að geta spáð fyrir um ýmsa þætti áætlunarinnar. Til að mynda ætla ég að spá því að þar verði ríkisútgjöld aukin að einhverju leyti. Ráðherrar munu stæra sig af stórauknum framlögum, að aldrei hafi verið settur jafn mikill peningur í heilbrigðisþjónustu og menntakerfið og svo framvegis og framvegis.

Samt sem áður verða þessar útgjaldaaukningar sennilega innihaldslausar. Í fyrsta lagi vegna þess að það er óvíst að þessi áætlun standist yfir höfuð vegna efnahagsástandsins, og í öðru lagi vegna þess að nema að aukningarnar haldi í við og fari umfram verðbólgu ársins í ár og þess næsta kemur allt út á núlli í besta falli eða í mínus í versta falli. Íslenska krónan verður verðlausari með hverju árinu sem líður og þá þarf hærri krónutölu til þess að kaupa sömu vörur og þjónustu.

Síðasta þjóðhagsspá gerði ráð fyrir 1,8% hagvexti á árinu 2023 og 2,5% hagvexti árið 2024, en hann mældist nokkuð hærri árið á undan, 2022, eða 6,4%. Það mun hækka öll útgjöld ríkisins, sem er nokkuð undarlegt. Verðbólga átti að verða 5,6% á árinu og 3,5% á næsta, sem er ólíklegt að standist – í ljósi þess að verðbólga mælist nú 10,2%. Það mun auka ríkisútgjöld í krónum talið, sem er eðlilegt.

En það þýðir ekki aukin útgjöld í verðmætum talið. Ef það er 10% verðbólga en fjárframlög eru aukin um 5% er það alla jafna skerðing á fjárframlögum – þegar litið er á stóru myndina, að minnsta kosti. Svo er talsvert flóknara að meta hvar og hvernig fjárframlög ríkisins aukast eða hjaðna – því það eru ekki allir útgjaldaliðir háðir verðbólgu. Stór hluti er til að mynda háður launaþróun. Í því ljósi er vert að merkja að nú þegar hafa talsmenn verkalýðsfélaga lýst því yfir að forsendur þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í desember 2022 séu í raun brostnar; að í rauninni sé um kjaraskerðingu að ræða í ljósi verðbólgunnar.

Við sjáum hvað setur þegar fjármálaáætlun birtist – en þegar hún verður kynnt þurfum við að passa að leyfa yfirlýsingaglöðum ráðherrum að selja okkur hana ekki dýrar en þeir keyptu hana. Það eru allar líkur á að þeir hafi fengið hana á slikk.