Ég var aldrei bjartsýnn á blíðar samfarir Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna þegar þeir hurfu undir sömu sæng. Þetta gekk allavega ekki vel í Forn-Grikklandi þegar Prómeþeifur og Seifur sneru bökum saman.

Þótt Prómeþeifur hafi gleymt okkur þegar hann gaf lífverum jarðar eiginleika, með þeim afleiðingum að við getum ekki flogið, erum illa hönnuð til sunds, með engar klær og einungis smjatttennur sem koma að engum notum á veiðum, er hann velgjörðarmaður okkar mannfólksins þar sem hann færði okkur eldinn svo við döfnuðum og tryggði með ráðabruggi að Seifur tæki hann ekki af okkur. Yfirguðinn vildi nefnilega hafa mannfólkið til að ráðskast með og riðlast á í myrkrinu, ef þannig bar undir. Hann vildi líka ótakmörkuð fríðindi guðum til handa en krafðist undirgefni af hálfu manna enda var hann á því að allt færi til þess í neðra ef mannfólkið réði. Prómeþeifur var hins vegar aldrei kátari en þegar eldur var undir kötlum í kotum og hlýtt á kvöldvökum. Þessar ólíku áherslur áttu illa saman og þar sem Seifur er ósamningslyndur endaði þetta með því að örninn fékk þann starfa að éta lifrina úr Prómeþeifi þegar hann fékk leyfi frá merki Sjálfstæðisflokksins.

Svo koma Kata og Bjarni og sameina þessa fornu fjendur rétt eins og lífið væri auglýsing frá Póstinum. Og hver er afraksturinn? Ekki hefur hagur hinna útvöldu versnað við samdráttinn en ekki verður heldur séð að ljósið hafi verið tekið af alþýðunni. Mér sýnist sáttmálinn heldur felast í því að guðir fái áfram að leika sér að mannfólkinu en þó allavega yfir kertaljósi.