Sigmundur Davíð var formaður Framsóknarflokksins 2009-2016. Í þingkosningunum 2013 fékk flokkurinn 24,4%. Á þessum tíma var Sigurður Ingi varaformaður, en til ágreinings kom milli þeirra félaga, og klofnaði flokkurinn. 2017 stofnaði Sigmundur Davíð svo Miðflokkinn.

Hvernig hefur fylgið þróast?

Í þingkosningunum 2017 fékk Framsóknarflokkurinn 10,7% atkvæða og Miðflokkurinn 10,8%. Samtals 21,5%, minna samtals en fyrir klofninginn, en munurinn var lítill.

Í þingkosningunum 2021 reyndi svo aftur á stöðu og styrk þessara fyrrum samherja, þá andstæðinga, og hafði Sigurður Ingi þá miklu betur. Framsókn fékk 17,3% atkvæða og Miðflokkur Sigmundar Davíðs aðeins 5,4%.

Klaustursmálið spilaði þar nokkra rullu, Sigurði Inga í vil, án þess, að hann hafi til fylgisaukningar unnið.

Til samans voru flokkarnir þannig enn með svipað fylgi 2021, 22,7%.

Gróft talað, hefur fylgi Framsóknarmanna, hvað svo sem flokksnafngiftum líður, því verið 20-25% síðasta áratug.

Hvað með kosningarnar nú?

Auðvitað eru sveitarstjórnarkosningar nokkuð annað en þingkosningar. En flokksböndin eru líka rík í þeim, og grunnfylgi oft svipað og í þingkosningum.

Ef fimm stærstu kjördæmin í sveitarstjórnarkosningunum eru skoðuð, Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Akureyri, en í þessum kjördæmum eru yfir 180 þúsund kjósendur, af alls um 250 þúsund kjósendum í landinu, þá er meðaltalsfylgi Framsóknar nú 17,4%.

Á sama tíma er fylgi Miðflokksins í þessum sömu kjördæmum komið niður í 2-3%, nema á Akureyri, þar sem flokkurinn fékk 7,9%. Tala má um meðaltal upp á 3,5%. Þannig, að enn er samtalan svipuð, um 21%.

Þetta hrun Miðflokks er heldur ekki Sigurði Inga að þakka, heldur held ég, að kjósendur hafi átt erfitt með að skilja vel ýmislegt tal og sérstaklega athæfi Sigmundar Davíðs í seinni tíð, eins og það, þegar hann hakkaði í sig hrátt nautahakk úti í móa, velti sér um velli með hundum og auglýsti þetta svo.

Hvað með Sigurð Inga?

Jú, auðvitað er Sigurður Ingi líka bara maður, ekki alveg gallalaus, frekar en Sigmundur Davíð eða við hin, og honum varð á tungubrjótur í veizlu hjá Bændasamtökunum, sem margir töldu rasískan.

Flestir áttuðu sig þó á því, þegar málið var skoðað betur, að ummælin, sem Sigurður Ingi átti að hafa viðhaft, voru svo klikkuð, að þau gátu ekki einu sinni kallazt rasísk.

Allir, sem sjálfir glugga í glas, skildu, að þetta hefði bara verið fyllirís­rugl í innviðaráðherranum. Hann slapp því með skrekkinn og skottið milli lappanna.

Vann Framsókn stórsigur nú?

Nei, í raun ekki. Heildarfylgið á bak við Framsókn hefur ekki aukizt, eins og sjá má hér að ofan.

Aukinn fjöldi fulltrúa er í raun ekki auknu fylgi að þakka, heldur fremur því, að raðir andstæðinganna rugluðust, eins og vel má sjá t.a.m. á því, að Einar Þorsteinsson, sem var formaður Týs, félags ungra Sjálfstæðismanna í Kópavogi, skipti eins og hendi væri veifað um ham; gerðist Framsóknarmaður í Reykjavík.

Eins náði Sjálfstæðisflokkurinn ekki vel vopnum sínum í þessum kosningum, þar sem margir vildu kenna formanni hans um klúðrið við Íslandsbankasöluna, sem reyndar var framkvæmdaaðilum að kenna, fremur en Bjarna, og færðust þannig fulltrúar af Sjálfstæðisflokknum á Framsókn, án eigin verðleika Framsóknar.

Því má líka „sigri“ Framsóknar við það, að sigur vinnist í 100 metra hlaupi vegna þess, að keppinautunum hafi farið aftur, fremur en, að viðkomandi hafi bætt sig.

Frjálslyndur miðjuflokkur?

Í Norður-Evrópu eru 15 stjórnmálaflokkar, sem telja sig vera frjálslynda miðjuflokka, og kenna sig við „Center“.

Nær allir þeirra skilja og túlka stefnu sína þannig, að samvinna evrópskra þjóða í ríkjasambandi ESB sé ekki bara æskileg, heldur bráðnauðsynleg, og, að þátttakan í þessu ríkjabandalagi, með systra- og bræðraþjóðum sínum, auðvitað okkar Íslendinga líka, sé eitt grunnstefnumálanna.

Meðan Halldórs heitins Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins 1994-2006, naut við, eins í formannstíð Jóns heitins Sigurðssonar, þar á eftir, má segja, að Framsókn hafi verið víðsýnn, samvinnusinnaður og frjálslyndur miðjuflokkur, sannur slíkur, einn af 15 í Evrópu, en með tilkomu Guðna Ágústssonar, svo að ekki sé talað um Sigmund Davíð og Sigurð Inga, þá er sá draumur búinn.

Með þessum mönnum hrökk flokkurinn til baka um áratugi í gamla og úrelta afturhalds- og einangrunarstefnu; hreinan heimóttarskap.

Kannske verður Framsókn aftur blessunarlega raunverulegur frjálslyndur miðjuflokkur með Einari Þorsteinssyni, Brynju Dan og Ásmundi Einari!? n