Þann 17. mars sl. ritaði aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins grein í Markaðnum í Fréttablaðinu þar sem hann fjallaði um fæðuöryggi og samkeppni (linkur hér: https://www.frettabladid.is/markadurinn/samkeppni-i-matvaelaframleidslu-stydur-vid-faeduoryggi/). Sú sem þetta ritar taldi ástæðu til að tjá sig um ónákvæmni í greinarskrifum aðalhagfræðingsins í sérstakri grein sem birtist þann 19. mars sl. (linkur hér: https://www.frettabladid.is/skodun/faeduoryggi-og-samkeppniseftirlitid/) Þann 24. mars sl. svaraði aðalhagfræðingurinn (linkur hér https://www.frettabladid.is/markadurinn/samkeppni-i-matvaelaframleidslu-stydur-vid-faeduoryggi-throadra-landa/) grein minni. Af lestri svargreinar hans er ljóst að hann hefur talið nauðsynlegt að leiðrétta fyrri grein sína. Ekki er það af ástæðulausu eins og bent hefur verið á. Í þessari nýju svargrein koma hins vegar fram sjónarmið sem nauðsynlegt er að taka til nánari skoðunar.

Í stuttu máli viðurkennir aðalhagfræðingurinn að ýmislegt hefði mátt betur fara í upphaflegri grein hans enda „uppfæra“ greinarhöfundar ekki greinar sínar að ástæðulausu, sbr. orðalag hagfræðingsins „...undirritaður hefur þegar uppfært upphaflegu greinina til þess að enginn velkist í vafa um til hvaða heimildar er vísað til.“ Umrædd heimild sem hér er vísað til var tækninóta í ritröð Food and Agricultural Organization, FAO, og átti einkum við um þróunarlönd, ekki iðnvædd ríki. Tilvísun sem birtist í tækninótu FAO sem aðalhagfræðingurinn vísað til staðfesta þetta. Er hér einkum vísað til þessarar fullyrðingar: „Despite the recent focus of much research on competition in food markets in developed countries, arguably there is reason to suggest that concerns about competition in the food sector are likely to be more prevalent in developing countries.“

Með sömu rökum er áhugavert að sjá að hann telji nú „tækifæri til þess að greina frá“ nýlegum fræðigreinum um samkeppni og fæðuöryggi í hinum iðnvædda heimi. Betur hefði farið að þessar tilvitnuðu greinar hefðu verið í hinni upphaflegu grein. Þessi nýja nálgun aðalhagfræðingsins breytir ekki eðli málsins enda fjalla þær greinar, sem nú er vísað til, ekki um að smáfyrirtæki stuðli að matvælaöryggi eins og aðalhagfræðingurinn fullyrti í sinni upphaflegu grein. Þessar nýju greinar sem vísað er til, tala einvörðungu um að „opnun markaða“ gæti gert það. Það er auðvitað allt önnur umræða, sem ég gæti vel rætt, en ástæðulaust að drepa málinu frekar á dreif.

Hvað varðar lögfræðilega hluta málsins þá segir aðalhagfræðingurinn að Samkeppniseftirlitið hafi fjallað um þá hlið málsins í öðrum greinaskrifum. Hið rétta í því máli er að forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur viðurkennt að stofnunin telji það koma til greina að undanþágur frá samkeppnislögum hér á landi verði þær sömu og gildi í Noregi og ESB. Hins vegar hafa hvorki forstjórinn né Samkeppniseftirlitið útfært það nánar, heldur fullyrða einungis að undanþágur í Noregi og ESB séu þrengri en gilda fyrir mjólkuriðnaðinn hér á landi. En hvernig þá? Það hefur aldrei komið fram hjá Samkeppniseftirlitinu, nema ein tilvísun til þess að samrunaeftirlit sé til staðar í Noregi og ESB en ekki á Íslandi. Sömuleiðis hefur eftirlitið gefið í skyn að heimila megi mögulega meira samstarf í öðrum greinum landbúnaðarins en aldrei hvernig og halda þeim sem í hlut eiga í hálfgerðri spennitreyju.

Greinarskrif aðalhagfræðingsins vekja upp margar spurningar um stöðu embættismanna. Í því sambandi vísast til orða Svanhildar Hólm Valsdóttur í Morgunblaðinu 24. mars sl. (bls 2 í grein eftir Andrés Magnússon blm.) Þar segir: „Svanhildur telur raunar forstjóra Samkeppniseftirlitsins ekki einan um að fara út fyrir þann ramma, sem embættismönnum er ætlaður. „Hér á landi virðist það orðin viðtekin venja frekar en hitt,“ segir Svanhildur. „Það virðist vera vinsælt hjá ríkisstofnunum að útdeila skoðunum.““

Greinarhöfundur tekur undir þessi orð Svanhildar Hólm og telur þau eiga við um títtnefnd greinarskrif.

Höfundur er hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni