„Langar þig að kyssa mig?“ spyr íslenskur, miðaldra, karlkyns leikari í gervi fulltrúa Útlendingastofnunar, setur stút á munninn og horfir stíft á hinsegin hælisleitanda sem svarar neitandi. Spyrjandinn hrósar happi og klessir hnefann á samstarfsmanni sínum. „Grunaði ekki Gvend. Góð tilraun,“ segja leiknu leyfisveitendurnir og halla sér glottandi aftur í sætinu, glottandi yfir því að hafa fundið leið til að hafna enn einum flóttamanninum. Það þarf ekki að matreiða þessa senu betur ofan í áhorfendur Áramótaskaupsins. Þau þekkja fréttir um það að hinsegin fólki sé gert að sanna hinseginleika sinn, óski það eftir alþjóðlegri vernd frá ofsóknum í heimalandi sínu.
Skápurinn sem skjól
Jafnvel við albestu aðstæður er erfitt fyrir margt hinsegin fólk að stíga út úr skápnum. Hinsegin fólk hikar því það veit að það getur mætt fordómum á ýmsan máta. Þau vega og meta stöðuna jafnvel þannig að betra sé að fara í felur með hinseginleika sinn en að hætta á það að framtíðarmöguleikar þeirra séu takmarkaðir að einhverju leyti.
Með það í huga er auðvelt að ímynda sér hvernig það er fyrir fólk viðkvæmum aðstæðum, svo sem í löndum þar sem hinsegin fólk er fordæmt, ofsótt og jafnvel myrt fyrir það eitt að vera hinsegin. Innan flóttamannakerfisins, þar sem einstaklingurinn þarf að vega og meta hvert skref, þurfa þau svo að meta hvort það sé hreinlega áhættunnar virði að ljóstra upp um hinseginleika sinn.
Heimild til sameiningar afnumin
Flóttafólk, sem flýr heimkynni sín við verstu mögulegu aðstæður með nánast engum fyrirvara, verður oft viðskila við ástvini sína; maka, börn, systkini, foreldra. Núgildandi útlendingalög veita einstaklingi á flótta heimild til þess að sameinast maka sínum eftir komuna til landsins, hafi þau skilist að, eins og gerist gjarnan þegar verið er að flýja ofsóknir.
Með útlendingafrumvarpinu sem nú er til umræðu á þingi ætlar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hins vegar að afnema þessa heimild gagnvart því fólki sem hingað kemur í boði stjórnvalda, þeim hópi fólks sem stundum er kallaður „kvótaflóttafólk“. Í greinargerð frumvarpsins segir að þessi undanþáguheimild sé óþörf, þar sem þessum einstaklingum sé boðið að koma til landsins í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, og að við valið á þeim einstaklingum sem boðið er sé gætt að einingu fjölskyldunnar.
Í tilfelli hinsegin fólks er þessi heimild afar mikilvæg. Samtökin '78 hafa mótmælt þessari breytingu harðlega, enda er hinsegin fólk oft í þannig aðstæðum á flóttanum að það þorir ekki að gefa upp raunverulegt samband sitt á meðan öryggi og líf þess og maka þess er enn í hættu, eins og rakið hefur verið. Í ofanálag getur tekið tíma fyrir fólk að treysta stjórnvöldum á ný eftir að hafa upplifað ofsóknir heima fyrir.
Lítið mál í stóra samhenginu – stórt mál í litla samhenginu
Fólk í þessari stöðu er aðeins brotabrot af því fólki sem hingað kemur á flótta. Því verður ekki séð hvaða máli það skiptir í stóra samhenginu fyrir stjórnvöld að girða fyrir þessa heimild.
Hins vegar skiptir heimildin öllu máli fyrir hinsegin fólk í þessari stöðu til þess að það geti sameinast ástvinum sínum í samræmi við réttindi þeirra samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasamningum. Það er með öllu ótækt að auka enn frekar á erfiðleika þeirra og þjáningar með þessum óþarfa skerðingum.
Hér er aðeins um að ræða eitt dæmi af fjölmörgum í frumvarpi dómsmálaráðherra, sem vega alvarlega að grundvallarmannréttindum flóttafólks, án þess að leysa á neinn máta þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna komu flóttafólks hingað til lands.