„Langar þig að kyssa mig?“ spyr ís­lenskur, mið­aldra, karl­kyns leikari í gervi full­trúa Út­lendinga­stofnunar, setur stút á munninn og horfir stíft á hin­segin hælis­leitanda sem svarar neitandi. Spyrjandinn hrósar happi og klessir hnefann á sam­starfs­manni sínum. „Grunaði ekki Gvend. Góð til­raun,“ segja leiknu leyfis­veit­endurnir og halla sér glottandi aftur í sætinu, glottandi yfir því að hafa fundið leið til að hafna enn einum flótta­manninum. Það þarf ekki að mat­reiða þessa senu betur ofan í á­horf­endur Ára­móta­skaupsins. Þau þekkja fréttir um það að hin­segin fólki sé gert að sanna hin­segin­leika sinn, óski það eftir al­þjóð­legri vernd frá of­sóknum í heima­landi sínu.

Skápurinn sem skjól

Jafn­vel við al­bestu að­stæður er erfitt fyrir margt hin­segin fólk að stíga út úr skápnum. Hin­segin fólk hikar því það veit að það getur mætt for­dómum á ýmsan máta. Þau vega og meta stöðuna jafn­vel þannig að betra sé að fara í felur með hin­segin­leika sinn en að hætta á það að fram­tíðar­mögu­leikar þeirra séu tak­markaðir að ein­hverju leyti.

Með það í huga er auð­velt að í­mynda sér hvernig það er fyrir fólk við­kvæmum að­stæðum, svo sem í löndum þar sem hin­segin fólk er for­dæmt, of­sótt og jafn­vel myrt fyrir það eitt að vera hin­segin. Innan flótta­manna­kerfisins, þar sem ein­stak­lingurinn þarf að vega og meta hvert skref, þurfa þau svo að meta hvort það sé hrein­lega á­hættunnar virði að ljóstra upp um hin­segin­leika sinn.

Heimild til sam­einingar af­numin

Flótta­fólk, sem flýr heim­kynni sín við verstu mögu­legu að­stæður með nánast engum fyrir­vara, verður oft við­skila við ást­vini sína; maka, börn, syst­kini, for­eldra. Nú­gildandi út­lendinga­lög veita ein­stak­lingi á flótta heimild til þess að sam­einast maka sínum eftir komuna til landsins, hafi þau skilist að, eins og gerist gjarnan þegar verið er að flýja of­sóknir.

Með út­lendinga­frum­varpinu sem nú er til um­ræðu á þingi ætlar ríkis­stjórn Katrínar Jakobs­dóttur hins vegar að af­nema þessa heimild gagn­vart því fólki sem hingað kemur í boði stjórn­valda, þeim hópi fólks sem stundum er kallaður „kvóta­flótta­fólk“. Í greinar­gerð frum­varpsins segir að þessi undan­þágu­heimild sé ó­þörf, þar sem þessum ein­stak­lingum sé boðið að koma til landsins í sam­vinnu við Flótta­manna­stofnun Sam­einuðu þjóðanna, og að við valið á þeim ein­stak­lingum sem boðið er sé gætt að einingu fjöl­skyldunnar.

Í til­felli hin­segin fólks er þessi heimild afar mikil­væg. Sam­tökin '78 hafa mót­mælt þessari breytingu harð­lega, enda er hin­segin fólk oft í þannig að­stæðum á flóttanum að það þorir ekki að gefa upp raun­veru­legt sam­band sitt á meðan öryggi og líf þess og maka þess er enn í hættu, eins og rakið hefur verið. Í ofan­á­lag getur tekið tíma fyrir fólk að treysta stjórn­völdum á ný eftir að hafa upp­lifað of­sóknir heima fyrir.

Lítið mál í stóra sam­henginu – stórt mál í litla sam­henginu

Fólk í þessari stöðu er að­eins brota­brot af því fólki sem hingað kemur á flótta. Því verður ekki séð hvaða máli það skiptir í stóra sam­henginu fyrir stjórn­völd að girða fyrir þessa heimild.

Hins vegar skiptir heimildin öllu máli fyrir hin­segin fólk í þessari stöðu til þess að það geti sam­einast ást­vinum sínum í sam­ræmi við réttindi þeirra sam­kvæmt stjórnar­skrá og mann­réttinda­samningum. Það er með öllu ó­tækt að auka enn frekar á erfið­leika þeirra og þjáningar með þessum ó­þarfa skerðingum.

Hér er að­eins um að ræða eitt dæmi af fjöl­mörgum í frum­varpi dóms­mála­ráð­herra, sem vega al­var­lega að grund­vallar­mann­réttindum flótta­fólks, án þess að leysa á neinn máta þær á­skoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna komu flótta­fólks hingað til lands.