Fyrir nokkrum árum uppgötvaði ég dásemdir sánabaða. Eftir reglulegar heimsóknir í sundlaugina var ákveðið að fórna einni geymslunni heima fyrir sánu. Þetta var fyrir tveimur árum og er þetta ein besta ákvörðun og framkvæmd sem ráðist hefur verið í á mínu heimili.

Talið er að í Finnlandi, landi þar sem búa 5,3 milljónir manna, séu 3,3 milljónir sánaklefa. Sánan er órjúfanlegur hluti af menningu og sjálfsmynd þessarar þjóðar sem jafnframt mælist sú hamingjusamasta í heimi. Samhliða þessari miklu notkun á sánaböðum hafa jákvæð áhrif sánabaða á heilsu fólks í Finnlandi verið rannsakaðar.

Með reglulegum sánaböðum (2-3 sinnum í viku) í að lágmarki 70 gráðu heitri sánu, má minnka líkur á hjartaáfalli um allt að 23%. Sé tíðnin aukin í 5-7 sinnum í viku minnka líkurnar í 58%. Er þá miðað við að setið sé í um 12-15 mínútur. Við sánaböð eykst blóðflæði um líkamann og um leið geta hjartans til að flytja súrefni. Við það lækkar blóðþrýstingur og þol eykst. Hitinn hefur fleiri jákvæð áhrif, þannig má draga verulega úr niðurbroti vöðvamassa, þar sem líkaminn eykur framleiðslu vaxtarhormóna verulega við hitaálagið. Svitinn sem líkaminn framleiðir til kælingar hjálpar um leið líkamanum til að losna við þungmálma sem safnast geta upp í líkamanum og valdið ómældum skaða. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á jákvæð áhrif á starfsemi heila og minnkandi líkur á heilablóðföllum. Og loks hafa sánaböð mjög góð áhrif á ónæmiskerfið.

Að öllu ofantöldu tel ég þó stundina þegar ég sest á brennheitan asparbekkinn og loka dyrunum að sánaklefanum hápunkt hvers dags. Með lokuð augun finn ég þakklætið renna heitt um æðarnar fyrir að hafa kynnst finnskri sánu.