Síðustu dagar hafa verið okkur meðvituðu neytendunum með samviskubit yfir kolefnissporinu talsvert þungbærir. Það hefur tæpast liðið sá dagur í nóvembermánuði að á manni hafi ekki dunið á víxl ákafar auglýsingar kaupahéðna annars vegar og áminningar um efnislega ofneyslu hins vegar. Ekki auðveldar það lífið að fram undan er sjálf jólahátíðin og færist þá aldeilis fjör í leikinn.

Um daginn var ég á ferðinni og ómþýð rödd útsendara kaupahéðna minnti mig á að nú væri svartur föstudagur. Það var reyndar þriðjudagur svo eitthvað eru dagarnir orðnir teygjanleg hugtök. Í öllu falli lá fyrir að í mildi sinni höfðu kaupahéðnar séð mér fyrir að minnsta kosti tveimur sérstökum afsláttardögum í nóvember og eiginlega heilli viku. Raunar virtist svartur föstudagur vera hvern dag nóvembermánaðar, ef betur var að gáð.

Síðasta auglýsing fyrir fréttir var samt frá Sorpu, sem minnti mig á að á hverjum degi kæmu þar til förgunar 600 tonn af drasli. Sex. Hundruð. Tonn. Sagði þulurinn í mjög langdregnum takti og svo þungum moll að Beethoven hefði orðið dapur. Hann dró samvisku mína sundur og saman í háði, meðvitaðri röddu þess sem allt flokkar, skilar á hverfisstöðina og lifir samkvæmt hinum nýja Maslow-pýramída. Samkvæmt honum (stutta útgáfan) á maður helst að endurnýta, annars fá lánað, ef það gengur ekki kaupa notað en forðast í allra lengstu lög að kaupa nýtt.

Um þetta hugsaði ég þar sem ég lá uppi í sófa á mánudagskvöldið og gekk frá stærsta hluta jólagjafainnkaupanna á netinu. Á Cyber Monday.

Það koma alltaf önnur jól.