Það er mikið ánægjuefni að sveitarfélögin í landinu hafi tekið höndum saman í febrúar á þessu ári um að vinna saman að stafrænni umbreytingu á sveitarstjórnarstiginu til að deila þekkingu og lausnum, þróa saman lausnir, hýsa þær og viðhalda og standa saman að útboðum. Þannig stefna þau hraðbyri að því að auka verulega þjónustu við íbúa og auka hagkvæmni í rekstri sveitarfélaga.

Meðal áfanga á síðasta ári er stofnun faghóps stafrænna leiðtoga sveitarfélaga og stafræns ráðs sveitarfélaga, sem skipað er bæjarstjórum og kjörnum fulltrúum tilnefndum af landshlutasamtökum sveitarfélaga, auk fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Hlutverk stafræna ráðsins er að vera stefnumarkandi og stuðla að faglegu ákvörðunarferli um samstarfsverkefni sveitarfélaga og eftirfylgni þeirra en faghópurinn veitir ráðinu faglega ráðgjöf og leggur fram tillögur um samstarfstækifæri. Ráðið lagði til að bætt yrði við tveimur starfsmönnum til að vinna í stafrænu umbótateymi sveitarfélaganna hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og voru þeir ráðnir í júní síðastliðnum.

Fyrsta samstarfsverkefnið er hönnun sjálfsafgreiðslulausnar inni á Ísland.is og innviðauppbygging fyrir sveitarfélögin þar. Lausnin sem er í þróun er umsókn um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og er hún komin vel á veg. Verkefnið mun ryðja brautina fyrir fleiri þjónustur sveitarfélaga inni á vefnum Ísland.is.

Með þessari leið er verið að nýta þá tæknilegu innviði sem ríkið hefur byggt upp og leggja um leið grunn að tækniarkitektúr fyrir sveitarfélögin, sem getur nýst í sameiginlegum framtíðarverkefnum sveitarfélaga. Annað samstarfsverkefni er miðlægt áhættumat hugbúnaðarlausna fyrir skóla sem mun veita skólum betri yfirsýn yfir lausnir sem þeir geta nýtt sér og hugsanlega persónuverndaráhættu vegna þeirra. Þetta verkefni mun komast í gagnið í lok september í gegnum vefinn stafraen.sveitarfelog.is.

Þá er í hönnun þjónustuvefur fyrir sveitarfélögin í stafrænni umbreytingu (stafraen.sveitarfelog.is) en á honum er í mótun svæði sem kallast lausnatorg, en þar munu sveitarfélög geta deilt og fengið nettar stafrænar lausnir og kóða þeirra „open source“ eins og t.d. með sorphirðudagatali, reiknivélum fyrir ýmis gjöld sveitarfélaga o.fl. Þá geta verktakar hannað nettar opnar lausnir fyrir sveitarfélögin eða þau sjálf og atvinnulífið svo stutt sveitarfélögin við að setja þær upp.

Fyrirmynd og reynsla af þessu er í Danmörku á vefnum OS2.eu og verður sagt frá honum á vefráðstefnu um stafræna umbreytingu þann 29. september. Einnig er unnið að leiðum til að gera stafræn innkaup sveitarfélaga hagkvæmari, með sameiginlegum leiðbeiningum, gæðaviðmiðum og rammasamningum. Önnur verkefni snúa að stuðningi vegna „pilot“ verkefna þar sem sveitarfélögin hafa nokkur hver farið í saman og munu ef reynslan er góð verða verkefni sem nýst geta fleiri sveitarfélögum.

Stafræn tækni býður upp á mörg tækifæri fyrir hagkvæmari rekstur sveitarfélaga sem og betri ákvarðanatöku og þjónustu við íbúa. Sveitarfélög landsins verða að taka stór skref nú til að verða ekki eftir í hraðri tækniþróun sem nú á sér stað. Stafræna umbreytingarteymið kannaði í sumar áhuga sveitarfélaga til 64 stafrænna verkefnatillagna en niðurstaða þeirrar könnunar er sá grunnur sem myndar forgangsröðun sameiginlegra stafrænna verkefna fyrir næsta ár, en nú eru verkefnatillögur úr þessari könnun í frekara umfangs-, ávinnings- og kostnaðarmati fyrir fjárhagsáætlun samstarfs sveitarfélaga í stafrænni þróun.

Ávinningurinn af samstarfi sveitarfélaga er margvíslegur, svo sem lægra verð við hugbúnaðarkaup, sameiginleg hönnun og þróun, sameiginleg hýsing, tengingar og viðhald lausna fyrir sveitarfélögin. Tími sparast við undirbúning verkefna eins og hugmyndavinnu, ferlagreiningar, þarfagreiningar, í leit að lausnum, við mat á lausnum, við samningagerð, við innleiðingu og breytingar verklags og menningar.

Ávinningurinn fyrir íbúa landsins verður betri þjónusta sem felur í sér þjónustu sem veitt er rafrænt og því er aðgengileikinn meiri, meiri sjálfsafgreiðsla, færri ferðir og minni tími sem þarf að eyða til að sinna erindum sínum við sveitarfélög. Við sjáum öll hvers vegna það er svo mikilvægt að vinna saman og í takt hjá sveitarfélögunum þar sem lögbundin skylda sveitarfélaga er sú sama en einnig er mikilvægt að vinna saman og í takti við ríkið.

Þjónustur taka við hver af annarri og það væri mikil sóun á fjármagni að hugsa þessi stjórnsýslustig í sílóum þegar við höfum tækifæri til þess að endurhugsa og endurhanna þjónustur þegar við erum að byggja upp ferlin og kerfin með stafrænni tækni. Við þurfum að hanna út frá íbúanum, það er notendamiðað. Stíga skrefin sem notandinn þarf að stíga í gegnum kerfið.

Það er mikill metnaður í sveitarfélögum er snýr að stafrænni þróun þeirra og tel ég að ákvarðanir um samstarf og uppbyggingu þess sé gríðarlegt gæfuspor. Reykjavíkurborg er með háleit markmið og hefur heldur betur fjárfest og nú þurfa önnur sveitarfélög landsins einnig að fjárfesta í stafrænni þróun.

Þann 29. september mun stafræna umbreytingarteymið halda vefráðstefnu sveitarfélaga um stafræna umbreytingu, samstarfið og verkefnin og verður sú ráðstefna opin öllum. Skráning á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.