Ég hef áður nefnt það á þessum vettvangi hvað mér finnst samfélagsmiðlaæði landans hafa skemmt mikið fyrir hefðbundnum samskiptum fólks og vandaðri umræðu. Athugasemdakerfin eru jafnan full af gífuryrðum, skrifuðum í hástöfum með að minnsta kosti fjórum upphrópunarmerkjum!!!!

Ekki hefur ástandið batnað frá því ég byrjaði að kvarta. Hver samfélagsmiðillinn á fætur öðrum ryður sér til rúms og fyrr en varir hættum við að tala saman, augliti til auglits. Sjálfur tek ég auðvitað þátt í þessu rugli en takmarka þó notkunina við Facebook og Instagram. Hef ekki hætt mér í fleiri samskiptamáta.

Börnin manns fara auðvitað ekki varhluta af app-æðinu. Eðlilega vilja þau vera „memm“. „Allir vinir mínir eru með þetta í símanum sínum,“ hrópa þau í kór. Maður gerir sitt besta til að verjast. Ég ætla hins vegar ekki að kvarta yfir eigin hlutskipti þessa dagana. Hugur minn liggur hjá annarri starfsstétt en okkur foreldrum.

Í gær bárust af því fréttir að einn vinsælasti samfélagsmiðillinn, TikTok, sé í raun eitthvað njósnaforrit frá Kína. Notendur appsins eru tæplega milljarður einstaklinga, mestmegnis unglingar. Fréttir benda því til þess að verið sé að fylgjast náið með hegðun mörg hundruð milljóna unglinga um allan heim. Víkur þá sögunni að samúð minni, sem liggur þó ekki hjá notendum forritsins.

Ég get varla ritað þessi orð, án þess að tárast yfir örlögum þeirra þúsunda kínversku leyniþjónustumanna sem nú sitja límdir við tölvuskjái sína í neðanjarðarhvelfingu undir Torgi hins himneska friðar, tilneyddir að hámhorfa á milljónir dansmyndbanda, allt í þeirri von að komast á snoðir um innanríkisleyndarmál vestrænna þjóða. Ólíkt er gæðunum skipt.