Nú liggur fyrir að ekki hefur verið tryggt fjár­magn til þess að fram­fylgja ný­sam­þykktum lögum um að fella sál­fræði­þjónustu og aðra gagn­reynda sam­tals­með­ferð heil­brigðis­starfs­manna undir greiðslu­þátt­töku Sjúkra­trygginga Ís­lands. Þetta er al­var­legt mál og til þess fallið að valda auknum kostnaði á öðrum sviðum heil­brigðis­þjónustu í bráð og lengd – því það er ljóst að mikil þörf er á þjónustu sem fólgin er í sam­tals­með­ferð sjálf­stætt starfandi heil­brigðis­starfs­fólks. Bið­listar, fjár­svelti og tak­mörkuð þjónusta verða til þess að fólk kemst oft ekki að fyrr en vandinn hefur stig­magnast og úr­lausnir verða því dýrari, um­fangs­meiri og tíma­frekari en þegar fólk hefur tök á að leita sér að­stoðar sjálf­stætt starfandi heil­brigðis­starfs­fólks á fyrri stigum. Á­standið í sam­fé­laginu árið 2020 hefur líka haft þær af leiðingar að þörfin mun aukast til muna næstu misseri og því nauð­syn­legt að tryggja að­gengi að marg­vís­legri þjónustu fyrir fólk.

Fé­lags­ráð­gjafar eru ein þeirra stétta sem veita gagn­reynda sam­tals­með­ferð og hafa þeir til þess bæði víð­tæka þekkingu, menntun og reynslu. Nám þeirra er fimm ára há­skóla­nám þar sem grunn­menntun inni­heldur meðal annars kenningar um sál­greiningu, kenningar um lausna­miðaða með­ferðar­nálgun, hug­ræna og at­ferlis­miðaða nálgun. Í náminu er fjallað um heila­starf­semi og tauga­boð og hvaða á­hrif slík starf­semi líkamans hefur á and­lega líðan fólks, greininga­við­mið DSM og ICD og ein­kenni geð­rænna vanda­mála og geð­raskana. Ítar­lega er farið í gegnum þroska­ferli og kenningar um tengsla­myndun og hvaða á­hrif það hefur á heilsu­far þegar tengsl rofna, eða ná ekki að þróast á við­eig­andi hátt. Nú er aukin á­hersla á mikil­vægi tengsla­myndunar barna fyrstu ævi­árin og liggur fyrir fjöldi rann­sókna um á­hrif hennar á fram­tíðar­færni barna hvað varðar sam­skipti, heila- og tauga­starf­semi og and­lega líðan. Í náminu er einnig rýnt í ýmsar að­ferðir sam­tals­með­ferðar – og þar á meðal fjallað um mikil­vægi með­ferðar­sam­bandsins. Verðandi fé­lags­ráð­gjafar læra um rann­sóknir, kosti og galla mis­munandi rann­sóknar­að­ferða og hvernig ber að lesa þær og túlka. Þá hefur Fé­lags­ráð­gjafa­deild Há­skóla Ís­lands verið í farar­broddi þegar kemur að kennslu um of­beldi, þar með talið heimilis­of­beldi og kyn­ferðis­of­beldi og á­hrif þess á líðan fólks til skemmri og lengri tíma.

Að loknu grunn­námi læra fé­lags­ráð­gjafar um á­föll og kreppu­kenningar, vinnu­að­ferðir með börnum og fjöl­skyldum, hóp­vinnu og -með­ferð og kafa dýpra í rann­sóknir og túlkanir þeirra, auk starfs­náms undir hand­leiðslu reynds fé­lags­ráð­gjafa. Fé­lags­ráð­gjafi er lög­verndað starfs­heiti og ein­göngu þeir sem hafa til þess leyfi land­læknis, geta kallað sig fé­lags­ráð­gjafa. Nám í fé­lags­ráð­gjöf byggir á gagn­reyndum að­ferðum og býr verðandi fé­lags­ráð­gjafa undir það að vinna með skjól­stæðingum í ýmsum að­stæðum. Margir fé­lags­ráð­gjafar vinna með­ferðar­vinnu á stofu og hafa flestir þeirra bætt við sig sér­þekkingu á því sviði, svo sem EMDR, fjöl­skyldu­fræði, TRM, HAM og lausna­miðaða nálgun. Allir sjálf­stætt starfandi fé­lags­ráð­gjafar hafa leyfi frá land­lækni til að reka eigin stofu og þurfa til þess að upp­fylla á­kveðin skil­yrði og fylgja lögum og reglum um slíka starf­semi.

Með­ferðar­leiðir í heiminum skipta hundruðum, margar þeirra eru gagn­reyndar og ýmsar fag­stéttir eru hæfar til með­ferðar­vinnu. Ein leið hentar ekki öllum og því þarf fag­fólk að geta valið ó­líkar leiðir og skjól­stæðingar eiga líka að geta valið fag­aðila og með­ferðar­leið sem hentar þeim. Vert er að hafa í huga að með­ferðar­sam­band milli fag­aðila og skjól­stæðings virðist hafa besta for­spár­gildið um út­komu með­ferðarinnar!

Að lokum vil ég skora á stjórn­völd að tryggja fjár­magn í það mikil­væga verk­efni að niður­greiða sam­tals­með­ferð heil­brigðis­starfs­fólks og koma þar með til móts við þá miklu þörf sem er í sam­fé­laginu fyrir slíka þjónustu!