Umræða og umfjöllun um tillögu í lagafrumvarpi um breytingar á samkeppnislögum, sem felur í sér að fyrirtækjum verði falið að meta það sjálf hvort samstarf þeirra samræmist samkeppnislögum í stað þess að þurfa að sækja um undanþágu fyrir samstarfi til Samkeppniseftirlitsins, hefur verið á villigötum frá því frumvarpið kom fram. Er látið í veðri vaka að breytingin, verði hún samþykkt, veiti fyrirtækjum auknar heimildir til samskipta og samráðs um viðskiptaleg málefni. Því fer fjarri. Hið stranga bannákvæði samkeppnislaga við ólögmætu samráði eða samkeppnishamlandi samstarfi fyrirtækja, sem getur leitt til stjórnvaldssekta á fyrirtæki og refsiábyrgðar einstaklinga, mun standa óhaggað eftir sem áður.

Í viðtali við Gylfa Magnússon, doktor í hagfræði og dósent við viðskiptafræðideild HÍ, á Morgunvakt Rásar 1, þann 24. október sl., lét Gylfi hafa það eftir sér að tillagan myndi grafa undan Samkeppniseftirlitinu og væri stórhættuleg því hún veitti stjórnendum fyrirtækja heimild til að hittast á fundum, ræða sameiginleg mál og hvar þeir geta náð árangri sameiginlega fyrir fyrirtæki sín. Framhaldsspurningu þáttastjórnanda um hvort menn gætu aftur tekið upp fundarhöld í Öskjuhlíðinni svaraði Gylfi: „Ja, þeir þurfa þess ekki einu sinni þeir geta haft bara fundinn með snittum og pilsner í virðulegum skrifstofum þannig að það er náttúrulega miklu þægilegra en að vera að hittast í Öskjuhlíðinni. Kannski er það framfararskref svona í einhverjum skilningi.“

Gylfi er jafnframt fyrrverandi ráðherra samkeppnismála og fyrrverandi stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins auk þess að hafa verið starfandi sem ráðgjafi þess frá árinu 2013. Það er bagalegt að málsmetandi fræðimaður og kunnáttumaður um samkeppnismál skuli fara með slíka rangfærslu. Að ýja að því að tillagan feli í sér heimild til ólögmæts samráðs er afbökun á staðreyndum máls.

Tillaga frumvarpsins gengur út á að færa íslensk samkeppnislög til samræmis við löggjöf annarra ríkja á EES-svæðinu og auka með því skilvirkni við framkvæmd samkeppniseftirlits í þágu atvinnulífs og neytenda en því fer fjarri að hún stuðli að veikara eftirliti. Það er ekki reynslan af starfi framkvæmdastjórnar ESB eða eftirlitsstofnunum annarra ríkja á EES-svæðinu.


Samstarf sem hefur jákvæð efnahagsleg áhrif


Samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 eru allir samningar, samþykktir og samstilltar aðgerðir milli fyrirtækja sem koma í veg fyrir eða raska samkeppni bannaðar. Gildir einu hvort samráðið er formlegt eða óformlegt. Í 15. gr. laganna er undanþáguheimild sem heimilar samstarf ef það:

1) Stuðlar að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða eflir tæknilegar og efnahagslegar framfarir
2) Veitir neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af því hlýst
3) Leggur ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð
4) Veiti fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða.

Samstarf fyrirtækja kann því að vera heimilt þegar jákvæð samkeppnisleg áhrif eru meiri en þau neikvæðu samkeppnislegu áhrif sem samstarfið kann að hafa í för með sér. Jafnframt þarf að vera hægt að sýna fram á það að jákvæð efnahagsleg áhrif skili sér til neytenda og að samstarfið gangi ekki lengra en þörf krefur til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Sem dæmi um samstarf sem hefur verið heimilað á Íslandi á grundvelli undanþágunnar má nefna undanþágu Nova og Vodafone til samstarfs í því skyni að ná fram hagræðingu í fjárfestingum og rekstri dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu, samstarf banka og sparisjóða (Auðkenni) til kaupa, uppsetningar og innleiðingar á öryggisbúnaði vegna netbankaviðskipta, heimild Gagnaveitu Reykjavíkur og Mílu til að eiga í samstarfi um að nýta sömu framkvæmdir til þess að leggja hvort sitt ljósleiðaranetið, heimild til samstarfs tæknimanna sem starfa að net- og upplýsingaöryggismálum fjármálafyrirtækja til að vinna gegn ógnum sem steðja að netöryggi og netglæpum sem beinast að fjármálafyrirtækjum og samstarf olíufyrirtækja um rekstur sameiginlegrar eldsneytisafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Fjölmörg fleiri dæmi væri hægt að nefna.

Ætla má að þörf fyrir nýtingu undanþágunnar kunni að aukast í hinu smáa hagkerfi á Íslandi þar sem þörf fyrir samnýtingu innviða og ör tækniþróun kann að kalla á aukið samstarf til að standast sífellt harðnandi alþjóðlega samkeppni.

Tillaga frumvarpsins felur í sér að í stað þess að fyrirtækjum beri skylda til að sækja um undanþágu til Samkeppniseftirlitsins fyrir samstarfi verði mat og ábyrgð á því hvort samstarf fyrirtækja standist undanþáguheimildina, fært til fyrirtækjanna. Bera þau sjálf þá ábyrgð á því að haga samningagerð sín á milli og samstarfinu öllu með þeim hætti að það samræmist lögum. Samkeppniseftirlitið skal setja leiðbeiningarreglur um fyrirkomulag mögulegs samstarfs. Þær leiðbeiningar hafa nú þegar verið gefnar út af ESB og Eftirlitsstofnun EFTA og því hægur vandi fyrir íslensk stjórnvöld að gefa út samsvarandi leiðbeiningar og annars staðar í Evrópu. Breytingin kallar líka á breytt vinnubrögð og gerir ráð fyrir því að telji fyrirtæki þörf á, geti þau leitað eftir sértækari leiðbeiningum til Samkeppniseftirlitsins þó hin endanlega ábyrgð liggi alltaf hjá þeim.

Er tillagan í samræmi við breytingar sem tóku gildi annars staðar á EES-svæðinu 1. maí 2004 og var þá ætlað að færa samkeppnisreglur til nútímahorfs. Í dag er Ísland eina landið á Norðurlöndunum og, eftir því sem undirritaður kemst næst en með þeim fyrirvara, á öllu EES-svæðinu sem hefur ekki breytt lögunum til samræmis við hina almennu framkvæmd. Því skal þó haldið til haga að í Danmörku er undanþágubeiðnaleiðin til sem formleg heimild en er vart notuð í framkvæmd. Evrópureglurnar hafa bein réttaráhrif í ríkjum ESB sem gerir það að verkum að þeir samningar sem mestu máli skipta fyrir neytendur falla þar undir.

Þó breytingin láti ekki mikið yfir sér olli hún og aðrar breytingar í átt að aukinni skilvirkni og virkari útgáfu leiðbeininga eftirlitsstofnana straumhvörfum við samkeppniseftirlit á EES-svæðinu. Hefur breytingin ekki síst stuðlað að betri nýtingu á mannafla eftirlitsstofnana í þágu brýnustu verkefna.

Það er orðið löngu tímabært að samkeppnisreglur á Íslandi verði lagaðar að þörfum markaðarins. Skilvirkari reglur leiða af sér virkari samkeppni og skilvirkara atvinnulíf sem eykur samkeppnishæfni landsins og skilar aukinni velsæld til almennings.

Það er því framar öðru neytendamál að ákvæði lagafrumvarpsins sem miða að aukinni skilvirkni verði að veruleika.

Höfundur er lögmaður á VÍK Lögmannsstofu og sérfræðingur í samkeppnisrétti.