Þegar umræður um þriðja orkupakkann stóðu sem hæst fyrir ári síðan, smíðuðu andstæðingar hans þar með talinn mótframbjóðandi Guðna Th., samsæriskenningu sem gekk á það að ákveðnir aðilar sem “myndu græða” á samþykkt orkupakkans hafi “keypt” forsetaembættið fyrir Guðna með því að styrkja framboðið fjárhagslega svo ekki yrði bras við að koma orkupakkanum í gegnum þing og forseta.

Nú hefur mótframbjóðandi Guðna ákveðið að endurræsa þessa samsæriskenningu með þeim rökum að fjórði orkupakkinn sé bara alveg við það að detta í umræður í þinginu. Fjórði orkupakkinn er þó ekki nær okkur í tíma en það, að það er allt eins líklegt að hann komi ekki til afgreiðslu í þinginu fyrr en eftir þarnæstu þingkosningar árið 2025.

Um það leyti sem sagt er að áðurnefnt plott með það að koma Guðna í forsetastól svo ekki yrðu vandræði með að koma þriðja orkupakkanum í gegnum þingið, ritaði þáverandi utanríkisráðherra sem stýrt hafði innleiðingarferli þriðja orkupakkans af miklum myndarskap eftirfarandi í árlega skýrslu sína til þingsins:

"Samningaviðræður EFTA-ríkjanna og ESB hafa staðið yfir í nokkur ár, meðal annars um aðkomu EES-/EFTA-ríkjanna að stofnuninni, og hefur utanríkismálanefnd Alþingis reglulega verið upplýst um málið. Tveggja stoða lausn fyrir ACER er sem fyrr ásteytingarsteinninn, þ.e. hvernig fari um lagalega bindandi ákvarðanir sem ACER getur tekið gagnvart aðildarríkjum ESB þegar um er að ræða mál sem snúa að EFTA-ríkjunum. Hugmyndir eru nú uppi um að útfæra tveggja stoða lausnina á svipaðan hátt og gert er varðandi aðlögun löggjafar á sviði fjármálaeftirlits fyrir EFTA-ríkin, þar sem gert er ráð fyrir þátttöku
Eftirlitsstofnunar EFTA varðandi EFTA-stoðina. Vonir standa til að slík útfærsla myndi greiða fyrir lausn málsins svo taka megi þriðja löggjafarpakka ESB fyrir innri orkumarkaðinn upp í EES-samninginn. "

Nokkrum vikum síðar leystist úr þessu ágreiningsefni sem greint er frá og rúmu ári síðar staðfesti sameiginlega EES-nefndin upptöku þriðja orkupakkans í IV. viðauka EES-samningsins. Þá var reyndar téður utanríkisráðherra hættur sem utanríkisráðherra, útafsottlu sem byrjar á “P” og nýbyrjaður sem sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Það muna nú eflaust einhverjir var utanríkisráðherra í mars 2016. Ef ekki þá er herra Google vís með að visa mönnum á rétt svar. En þá var þriðji orkupakkinn bara á fínum stað í ferlinu og nánast klappaður og klár. Þökk sé téðum utanríkisráðherra!

Að ofansögðu, er það alveg ljóst að téðar samsæriskenningar eiga sér í besta falli afarhæpna stoð í raunveruleikanum. Þær eru í raun ekkert annað en örvæntingarfull viðbrögð manna sem villst hafa af vegi málefnalegrar umræðu og þvælast nú um á holóttum og hlykkjóttum vegi upploginna saka og rógburðar.

En kannski græjaði George Soros bara framboð Guðna Th. til þess að tryggja það að Sigmundur Davíð yrði aldrei aftur forsætisráðherra? Hver veit?