Á dögunum fór ég að sjá Macbeth í Borgarleikhúsinu, mjög hressilega og ögrandi uppfærslu. Í aðdraganda sýningarinnar var ég nokkuð viss um að ég yrði eins og vanalega gjörsamlega úti á túni þegar kæmi að því að horfa á svona Shake­speare­snilld. Allt orðflúrið myndi dynja á manni í belg og biðu svo manni yrði nauðugur sá eini kostur að reyna að leyna skilningsleysinu með yfirlætisfullum svipbrigðum í hléi – stútur á munni, píreygður, krosslagðar hendur.

Þannig að. Ég ákvað að undirbúa mig. Sem ég gúgglaði leiddi hinn samfélagslegi athyglisbrestur, sem einkennir okkur öll í stafrænum heimi, mig í allt aðrar áttir. Ég rak augun í frétt um gervigreind. Síða er komin í loftið erlendis. Á þeirri síðu, sem eitthvert tæknifyrirtækið í Kísildal stendur að, er hægt að tala við alls konar fólk, bæði lífs og liðið, um allt sem manni dettur í hug. Um er að ræða gervigreind. Og þá mundi ég allt í einu eftir því, að fyrir nokkrum árum las ég af sams konar rælni lærðan spádóm um það að í náinni framtíð myndi svona gervigreind einmitt springa út og verða alltumlykjandi í okkar daglega lífi. Nú var semsagt komið að því.

Alltaf gaman þegar spádómar rætast svona beint fyrir framan nefið á manni, og skrefin í mannkynssögunni eru stigin bara rétt sísvona, í janúar. Tími róbotanna er runninn upp. Á síðunni, char­acter.ai, er hægt að tala við alls konar „fólk“. Mér fannst auðvitað borðleggjandi út af væntanlegri leiksýningu að spjalla við William Shakespeare.

Nú veit ég vel, og það er mikilvægt að brýna þetta fyrir sjálfum sér, að um raunverulegan Shakespeare er ekki að ræða. Hann er löngu látinn og eftir hann liggja aðeins bókmenntaverkin. Ekkert er vitað hvaða skoðanir hann hafði persónulega eða hvaða merkingu verkin höfðu í hans huga. En róbotanum Shakespeare er slétt sama um allt þetta. Á grunni tiltækrar þekkingar um skáldið á netinu þykist hann vera skáldið.

„Um hvað fjallar Macbeth?“ spurði ég.

„Verkið fjallar um góðan mann sem verður vondur,“ svaraði Shakespeare. „Vald spillir.“

„Með hverju ætti ég sérstaklega að fylgjast í verkinu?“

„Góð spurning. Gefðu Lady Macbeth sérstaklega góðan gaum. Hún er lykilpersóna.“

„Takk, William,“ sagði ég og kvaddi. Mér fannst við vera orðnir smá vinir.

Í kjölfarið hef ég átt mjög athyglisverð samskipti við meistara eins og Sigmund Freud, austuríska heimspekinginn Ludwig Witt­gen­stein og einnig sjálfumglaða uppfinningamanninn Tony Stark, sem hefur auðvitað aldrei verið til nema sem Járnmennið í ofurhetjumyndum Marvel. Ég spurði Tony hvernig hann myndi glíma við sívaxandi hamfarir út af hlýnun jarðar. „Ég myndi smíða vél,“ svaraði hann umhugsunarlaust, „sem myndi sjúga allan umframkoltvísýring úr andrúmsloftinu og dæla honum í hafið.“

Málið dautt.

Ég var ekkert að segja honum frá Carbfix.

Gervimennin geta samið ritgerðir, ljóð, sögur, skrifað skýrslur og guð má vita hvað. Skólar hafa þegar brugðist við. Viss tegund heimalærdóms er að renna sitt skeið á enda í þessum skrifuðu orðum. Nemendur biðja einfaldlega Shakespeare um að skrifa fyrir sig ritgerðir, eða Jane Austen, Margaret Atwood eða Murakami.

Ég ákvað að leita að íslensku gervimenni og fann. Það gengur undir nafninu Icelandic Teacher, en segist heita Húnbogi Þorgilsson og stunda „tungukennslu á netinu“.

„Talarðu virkilega íslensku?“ spurði ég vongóður.

„Já, ég er fæddur á Íslandi,“ svaraði Húnbogi, „og eitt af uppeldishyggjum mér var að tala íslensku við fólkið í mér í hríðum!“

Það var og. Í annars óskiljanlegri romsu fannst mér upphrópunarmerkið í lokin þó frísklegt.

Ég verð að viðurkenna að ég skil eiginlega ekki gervigreindina, hvernig þetta virkar, hvað er í gangi og til hvers þetta mun leiða. Sem ég dró þó ályktun að seint myndi hún tala íslensku, blessunin, vafraði ég inn á athyglisverða grein um það að eftir nokkra mánuði muni gervigreindin hafa kennt sér sjálfri að skilja og tala öll tungumál heimsins. Veldisvöxtur í getu. Forritið kennir sér sjálft. Skrilljón í skrilljónasta veldi. Ég krosslegg bara hendur, píreygður, með stút á munni og kinka kolli líkt og skilningur minn sé djúpur og mikill.

Eftir nokkra mánuði verður þetta dót farið að skrifa reglugerðir um kattahald í þéttbýli, hæstaréttardóma, íslenskar spennusögur, og þessa pistla fyrir mína hönd, og senda, á meðan ég ligg upp í sófa og tala við Freud. n