Í vor samþykkti borgarstjórn nýja stefnu í íþróttamálum til ársins 2030. Ein af lykilaðgerðum þeirrar stefnu er ákvörðun um forgangsröðun íþróttamannvirkja til næstu ára. Allt frá stofnun Íþróttabandalags Reykjavíkur árið 1944 hefur það verið markmið að Reykjavíkurborg og Íþróttabandalagið myndu vinna saman að slíkri forgangsröðun, en þrátt fyrir góða samvinnu á mörgum sviðum hefur ekki áður tekist að ná saman um sameiginlega og heildstæða, skýra forgangsröðun, fyrr en nú.

Hugmyndum að nýjum verkefnum var safnað saman og þær metnar út frá félagslegum og fjárhagslegum mælikvörðum. Mannvirkin voru metin út frá því hve mörgum þau gætu þjónað og miðað við þær greinar sem þar yrðu æfðar. Skoðað var hve vel verkefnin stuðluðu að jafnræði milli hverfa, hvort þau fjölguðu greinum. Verkefnin voru metin með tilliti til vistvænna samgangna. Loks voru þau metin fjárhagslega út frá stofnkostnaði og árlegum rekstrarkostnaði fyrir borgarsjóð.

Niðurstaðan felur í sér sameiginlega sýn Reykjavíkurborgar og ÍBR á fjárfestingar næstu ára. Þau verkefni sem skora hæst eru þau sem stuðla að jafnræði milli hverfa, nýtast mörgum,og auka við framboð íþróttagreina í hverfunum.

Það er okkar mat, að verkefnin á listanum séu framkvæmanleg innan skikkanlegs tíma. Flest er hægt að ráðast í á næsta áratug. Röð verkefnanna gefur sterka vísbendingu um röð framkvæmda á næstu árum en er þó ekki heilög, því sum verkefnanna er hægt að ráðast í hratt, meðan í öðrum tilfellum er kjörið að ljúka við hönnun, finna endanlega staðsetningu, samþykkja deiliskipulag og tryggja fjármögnun.

Með verkefninu hafa borgin og ÍBR einnig öðlast mikilvægt tól sem hægt verður að nýta til að forgangsraða nýjum fjárfestingarhugmyndum í framtíðinni. Þau má meta með sama hætti og aðlaga svo þau falli betur að markmiðum íþróttastefnunnar. Við erum sannfærð um að þessi góða vinna eigi eftir að skila sér í enn betra íþróttastarfi í borginni á næstu árum.