Nú um helgina flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands Vínartónlist á árvissum tónleikum sínum upp úr áramótum. Allir þeir sem í salnum sátu fundu og skynjuðu samstillinguna, nákvæmnina og næmnina sem til þarf svo þessi indæla tónlist skili sér til þeirra. Það var sannarlega unaðslegt að heyra og skynja tónlistina flutta af tugum hljóðfæraleikara sem léku á hljóðfæri sín í nákvæmum samhljómi. Það blasir við að það er ekki nóg að vera flinkur á hljóðfærið sitt, ekki skortir færnina hjá listamönnunum sem skipa sveitina. Á það þarf að leika þannig að tónar úr tugum hljóðfæra falli saman í eina heildstæða mynd sem þannig verður að tónlist.

En það er víðar sem samhljómur er áríðandi og nota má þessa líkingu við hljómsveit um nánast hvað sem er. Stundum er gerð krafa um samhljóm, þótt sú virðist ekki ávallt verða raunin.

Í liðinni viku urðu þau atvik að hópi erlendra ferðamanna var stefnt í bráðan voða á hálendinu. Það skal játað að það er ekki hlaupið að því að skilja hvernig það gat orðið niðurstaðan að halda áætlun og fara með fólkið í ferðina þegar fyrir lá óveðurspá og kyrfilega kynnt. Að það skyldi vera talið í lagi að fara með hóp fólks í vélsleðaferð á reginfjöllum, á sama tíma og foreldrar voru beðnir að gæta þess að börn væru ekki utandyra á höfuðborgarsvæðinu og skyldu sótt í skóla. Blessunarlega tókst að bjarga fólkinu eftir klukkustunda langar hremmingar. Í fjölmiðlum kom fram að einhverjir í hópnum bjuggust við að þeir hefðu lifað sinn síðasta dag.

Ferðaþjónusta hér á landi er ung atvinnugrein og viðkvæm. Það er ekki einkamál þess fyrirtækis sem í hlut á þegar svona atvik verður. Það er brýnt hagsmunamál allra sem starfa að ferðaþjónustu hér á landi að svona sé ekki staðið að verki. Það gerir þetta mál svo enn verra að þetta er ekki í fyrsta sinn þar sem fyrirtæki þetta kemur við sögu í sambærilegu atviki. Það má vel vera að hægt sé að gera út á glæfraferðamennsku, en varla yrði sex ára börnum veitt svoleiðis þjónusta, eins og reyndin varð í þessari ferð.

Því verður ekki neitað að oft hefur gengið illa að fá ferðamenn til að hlíta einföldum reglum og sýna varúð og aðgát á ferðamannastöðum þar sem hættur eru fyrir hendi.

Glannaleg hegðun þeirra í Reynisfjöru, við Geysi, hjá Gullfossi og víðar, staðfesta að oft tefla erlendir gestir okkar sjálfir á tæpasta vað og lítið virðist ganga að opna augu þeirra fyrir því að þannig geti þeir farið sér að voða.

Þrjátíu og níu manna glæfraför í aðdraganda illviðris er af öðrum toga. Þar virðist fólki hafa verið teflt í tvísýnu vitandi vits. Miklu skiptir því að rannsaka atvik öll og atburðarás og beita þeim úrræðum sem tiltæk eru til að tryggja að svona lagað hendi ekki aftur. Auk opinberra aðila verður atvinnugreinin sjálf að koma að verki.

Um það þarf að vera samhljómur.