Ég hugsa að alla tíð hafi mannlífið verið þeim annmörkum háð, að fólk með völd og peninga hefur getað sett sér sína eigin siðferðismælikvarða, hagað sér eins og því sýnist á kostnað annarra og látið alls konar almennar leikreglur almúgans sig litlu skipta. Um þannig háttalag eru alls konar heimildir. Mannkynssagan geymir urmul dæma. Það breytir ekki hinu, að sem þegn í rótgrónu lýðræðisríki á 21. öld hefur maður haft ríka tilhneigingu til að halda að mannlífið hafi þróast til betri vegar hvað þetta varðar, að meira jafnræði ríkti milli fólks, að peningaliði væri haldið betur í skefjum og að lög og reglur væru í hávegum höfð af öllum, sama hvaða tekjuflokki fólk tilheyrði eða hversu mörgum fyrirtækjum það stjórnaði. Mun fleiri geta jú grillað og grætt eins og þjóðfélagið er orðið, keypt sér heitan pott og farið til útlanda.

Almennari velmegun hefur líklega leitt til vissrar bjartsýnisblekkingar, um að þjóðfélagið sé orðið að réttlátari leikvelli þar sem hið sama skuli gilda um alla sem spila. Alltaf er það jafn niðurdrepandi að uppgötva hvað við Íslendingar hjökkum sífellt í sama farinu þegar kemur að völdum og peningum. Góð rök benda til að Íslendingum hafi alltaf verið stjórnað af peningaliði. Stórbændur réðu einu sinni, svo stórkaupmenn og nú síðustu áratugina hafa sjávarútvegsfyrirtæki haft töglin og hagldirnar. Þó svo auðvelt sé að sniðganga áhrif slíkra fyrirtækja dags daglega – búi maður ekki í litlu byggðarlagi úti á landi – og láta þau sig litlu skipta – og langflest eru þau vissulega prýðileg og vel rekin, metnaðarfull fyrirtæki – að þá gýs hinn undirliggjandi sannleikur alltaf upp á yfirborðið með reglulegu millibili: Ógni þjóðfélagsleg viðmið, lög, reglur, almenn háttvísi og góðir viðskiptahættir markmiði stórs sjávarútvegsfyrirtækis, þá ræður sjávarútvegsfyrirtækið. Þetta lögmál virðist hoggið í stein í stjórnkerfinu. Kjósi slíkt fyrirtæki að haga sér eins og skepna – múta, ógna og njósna – er viðkvæðið einfalt: Þá það.

Ein stærsta þversögn okkar tíma er þessi: Fólk, almennt, keppist við að vera besta útgáfan af sjálfu sér, eins og það er kallað. Reynt er með byltingum á samfélagsmiðlum að opna augu fólks fyrir mikilvægi góðra samskipta, þar sem enginn veður yfir annan eða beitir annan ofbeldi. Samfélagsleg vitund um mikilvægi háttvísinnar hefur líklega sjaldan verið meiri. Fólk um allar koppagrundir reynir nú eftir fremsta megni að vanda sig, og þótt sumum auðnist það illa og öðrum vel, er boðorðið almennt viðurkennt og einkennir mjög okkar tíma: Ekki vera fáviti.

Um leið og þetta á sér stað, og hér er þversögnin, hefur hins vegar mýgrútur fólks – einkum og sér í lagi valda- og peningafólk – komist að þeirri niðurstöðu að áhættan sem fylgir því að haga sér eins og fáviti er eiginlega engin, sé maður í réttri aðstöðu. Það er hægt að komast upp með hvað sem er. Hvernig þú hagar þér – hafirðu völd og fé – skiptir nánast engu. Að ljúga, svíkja, hóta, múta og kúga er allt eitthvað sem mjög einfaldlega er hægt að snúa sér í hag, hafi maður aðgang að samfélagsmiðli og stjórnmálaflokki. Svona háttsemi, sem mjög hefur rutt sér til rúms í vel flestum þjóðfélögum á undanförnum árum, felur því miður í sér átakanlegan spegil á þjóðfélögin sjálf og þegna þeirra. Of margir eru samdauna, aðrir eru haldnir aðdáun á hátterninu, enn aðrir trúa lygunum og hinir reiðu eru tvístraðir og ráðalausir.

Í svona umhverfi er hægt að spila marga leiki. Sitji maður á milljörðum og vill ólmur eignast fleiri, er rökrétt að firrtur mannshugur komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að setja á stofn skæruliðadeild hafi maður orðið uppvís að siðleysi og lögleysu. Að rétt sé að herja á sendiboðana, fara með róg á hendur samborgurum sínum, viðurkenna ekkert rangt og biðjast afsökunar með lögspekilegum semingi sé farið yfir strikið.

Hvað er til ráða? Jú, að minnsta kosti tvennt þarf að gerast. Forsvarsmenn svona fyrirtækja þurfa að horfa á kvikmyndina Do the right thing eftir Spike Lee og draga af henni – þó ekki væri nema einungis með því að íhuga titilinn um stundarsakir – þann lærdóm að í lífinu öllu, sérstaklega eigi maður peninga, ber fólki sú skylda að reyna eftir fremsta megni að gera veröldina betri, en ekki verri. Þetta gildir alltaf, í öllum kringumstæðum. Hitt er svo þetta: Að við sem byggjum þetta land og þurfum að horfa upp á svona aðfarir hvað eftir annað – yfirlæti, hroka, skæting, siðleysi – notum tækifærið í næstu kosningum og kjósum burt hverja þá sem á einhvern hátt finnst svona dónaskapur við þjóðina, eins og við höfum orðið vitni að undanfarið, í lagi.