Í landsliðsleikjum vikunnar í fótbolta hafa margsinnis komið upp þær aðstæður á vellinum að leikmaður hafi leitað að samherja til að senda boltann til. Setningin „hann leitar að samherja“ hefur ítrekað fallið úr munni lýsanda. Í ljósi annarra tíðinda í síðustu viku gat ég ekki annað en glott að þeirri nýju merkingu sem þessi látlausa knattspyrnulýsing hefur fengið. Sú heimsmynd hefur opinberast okkur nokkuð skýrt, að út um allan heim eru spilltir stjórnmálamenn að leita sér að samherja.

Að leita sér að samherja merkir að skima eftir einhverjum nógu ríkum, gráðugum og siðlausum til þess að bera á sig fé. Líkur sækir líkan heim. Spilltur finnur spilltan. Ætli sé ekki til einhvers konar Tinder fyrir svona leit? Sjávarútvegsráðherra í Afríku og útgerðarmaður á Íslandi. Báðir svæpa til hægri. Allir græða.

Lögmálið

Eða einmitt ekki. Í raun og veru græðir enginn nema nokkrir. Fólkið sem er alltaf að græða. Mikið rosalega er það einhvernveginn alltaf að verða skýrara og skýrara hvers lags skaðræði slíkt fólk getur verið. Sjáiði til. Allflestir lifa og hrærast í þeim veruleika að fjárhagslegir sigrar skilgreinast af því að innistæða sé fyrir hendi um mánaðamót til að borga reikningana. Geti maður það, þá er maður nokkuð rólegur. Geti maður það ekki er andað í bréfpoka. Á þessum grunni hafa æði margir náð að lifa giska hamingjuríku lífi. Hægt er að finna gleði og velferð í svo ótal mörgu í veröldinni sem kostar ekki mikið og stundum ekki neitt. Hægt er að tileinka sér nægjusemi og nýtni og samt vera glaður. Hægt er að gera mikið fyrir lítið.

En svo eru það semsagt þessar týpur. Svona forstjórar. Með eigur metnar á skrilljón trilljónir. Og mikið ægilega væri veröldin miklu betri ef það skyldi í alvöru vera þannig að fólk sem er komið með slíkt ríkidæmi í hendurnar myndi á einhverjum tímapunkti hugsa að komið væri nóg af auði hvað það sjálft varðaði. Nú mætti orkan, peningurinn, athyglin fara í það að bæta heiminn. Gera gott. Bjarga málum.

En nei. Það er nánast lögmál hvað varðar manneskjur að verði hún rík, linnir hún ekki látum fyrr en hún verður ríkari. Mikið vill alltaf meira.

Áróðurinn

Einkum þetta fer í taugarnar á mér: Nú vegur mannkynið salt á barmi tortímingar. Á okkur dynur krafan á hverjum degi um að „við“ verðum að gera eitthvað. Venjulegt fólk á dagvinnutaxta rýkur til og sýnir samfélagslega ábyrgð. Rusl er flokkað. Skipt yfir í rafmagnsbíl. Flugferðir kolefnisjafnaðar. Kjötát minnkað. Á sama tíma má lesa, ef grafið er djúpt, áætlanir hinna ríku. Þar virðist enginn vandi fyrir hendi. Meira skal framleitt af olíu. Neyslan skal aukin. Græða skal fé fram í rauðan dauðann. Fræðimenn eru meira að segja farnir að benda á, að þessi mikla áherslu á að „við“, neytendur, eigum að gera eitthvað sé lítið annað en útsmoginn áróður runninn undan rifjum þeirra sem eiga allt og öllu ráða. Ef áherslan er sífellt á það að óskilgreindur massi breyti hegðun sinni — sem gerist ef til vill á löngum tíma — þurfa hinir ríku ekki mikið að flýta sér við að breyta því sem skiptir þá öllu máli. Ef ríkustu fyrirtæki heimsins yrðu umhverfislega ábyrg á morgun og hættu að selja vörur sem eru að gjöreyða lífsgrundvelli jarðarbúa yrði málið leyst.

En þá kemur til kasta lögmálsins. Græðgin ræður.

Vitfirring

Svona er þetta á öllum sviðum. Venjulegu fólki er uppálagt að vera kurteist og venjulegum körlum að umgangast kvenfólk af virðingu. Svoleiðis meðalmennska flækist ekki fyrir milljarðamæringum í valdastöðum, eins og Trump fyrir vestan. Hann finnur nýja botna í mannlegum samskiptum í viku hverri og uppsker fylgi. Venjulegu fólki er uppálagt að hafa siðferðiskennd. Að múta ekki. Svoleiðis húmbúkk flækist ekki fyrir milljarðamæringi á Íslandi. Mútað er hægri vinstri. Allt ber að sama brunni. Orðræðan um að „við“ verðum að gera eitthvað, þessar fögru og mikilvægu samfélagslegu byltingar sem manni virðist vera að eiga sér stað, þær ná ekki uppí toppana. Þeir dansa ekki með. Hófsemi, siðferðiskennd, réttlætiskennd, skynsemi, fyrirhyggja og góðvild á ekki við í hæstu lögum mannlífsins. Græðgi og eiginhagsmunasemi hinna ofurríku er á góðri leið með að kippa lífsgrundvellinum undan mannkyninu. Við erum föst í vitfirringu þeirra og skammsýni. Til er orð yfir slíkt ástand á ensku, sem kannski hentar ekki opinberu íslensku prentmáli en má staðfæra og þýða ljómandi vel yfir í okkar veruleika: Klausturfokk.

Þunglyndislegt er það vissulega. Eina leiðin til að bjarga mannkyninu frá glötun virðist vera sú að þessir menn sjái að þeir geti mögulega grætt á því. Svo ég orði það öðruvísi: Ef þeir græða ekki á því, má mannkynið þeirra vegna deyja út.