Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig dæmigerður sólarhringur hafi gengið fyrir sig áður en heimurinn sítengdi sjálfan sig við samfélagsmiðla og snjallsíma. Ef við förum til dæmis 45 ár aftur í tímann þá las fólk dagblöð á morgnana, hlustaði á útvarpsfréttir í hádeginu og sjónvarpsfréttir um kvöldið, en í góða tólf tíma þaðan í frá var ekkert frekara framboð af fréttum.

Ekki nóg með það, heldur voru þær þó fáu fréttir sem í boði voru frekar þurrar og formlegar, þuldar upp af manni með barta sem talaði svo hægt að í dag myndu flestir halda að þeir væru að hlusta á hugleiðsluhlaðvarp.

Fréttirnar voru um efnahagsmál, þorskverð og ástand túna, ekki óáþekkar tilkynningum eða skýrslum stofnana. Raddir venjulegs fólks höfðu minna vægi en áherslan var á sjónarmið ráðamanna og þeirra sem tóku ákvarðanirnar.

Í grunninn var fókusinn á samhengið í samfélaginu: aflatölur, hagkerfið og framleiðni, frekar en sjónarhorn hins almenna manns. Þetta var í samræmi við tíðarandann, það var minna til og við vorum einum aflabresti frá því að þurfa að herða sultarólina. Vissulega gat fólk skrifað í blöðin ef því lá mikið á hjarta en það gat tekið marga daga að fá greinar birtar og enginn deildi eða lækaði í þá daga.

Upplifunin tekur yfir

Veruleikinn er vitaskuld annar í dag. Ísland hefur smám saman siglt upp í efstu sætin í mælingum þegar kemur að alþjóðlegum samanburði á lífsgæðum og velsæld. Ef fréttamaðurinn með bartana væri enn á sínum stað í settinu myndi hann sennilega ekki gera annað en að lesa tilkynningar um hve vel okkur gengi.

En stemningin er bara ekki þar í dag. Áhuginn liggur miklu frekar á sjónarhorn almennings, heyra hvað venjulegu fólki finnst, fá fram hversdagslegu dæmin og frásagnirnar. Fjárframlög til opinberrar þjónustu geta verið há í alþjóðlegum samanburði, en ef þeir sem þurfa á þjónustunni að halda eru ítrekað að upplifa erfiðleika, bið og óöryggi þá er það til marks um að kerfið virki ekki sem skyldi.

Reiðin selur

Þessar frásagnir fóru smám saman að taka meira og meira pláss í miðlunum. Innan um fréttir af álverði og dilkakjöti fór persónuleg upplifun að skipta máli. Með samfélagsmiðlunum sprakk þetta svo út og hefur að mörgu leyti tekið yfir fréttir og hvernig við meðtökum atburði líðandi stundar, upplifun hefur orðið miklu meira vægi en samhengið.

Smám saman hefur þetta narratív tekið yfir í umræðu og pólitík.

Lögmálin í þessum nýja veruleika eru að gagnrýni og reiði flýtur ofan á, sópar upp lækum og deilingum, en langloka um að staðan sé nú almennt góð drukknar í hávaðanum, þykir flöt og leiðinleg. Í dag á sæmilega reiður maður á Internetinu ágætis möguleika á að rata í fyrirsagnir netmiðlanna, sé hann bara nógu stóryrtur.

Sá sem ætlar að benda á samhengið – jú, það er vissulega ýmislegt sem má bæta en í það heila er staðan hins vegar mjög góð – er bara hluti af vandamálinu, skilur ekki umræðuna og er ekki með á nótunum.

Kosið í rústum?

Úr verður einhvers konar sérkennileg keppni um að tala nógu hátt inn í reiðina. Við sjáum ákveðin merki um þetta í kosningunum sem eru fram undan. Tilfinningin er stundum sú að við séum ekki að kjósa í landi sem teljist í fremstu röð í alþjóðasamanburði, heldur landi sem er nánast í rúst.

Ef marka má orðræðuna þá er atvinnulífið bara fínt orð yfir arðrán, dómar verða ruddir og dómarar reknir ef þeir dæma ekki rétt og henda á stjórnar­skránni í heild sinni og taka upp nýja, eitthvað sem ekkert annað land í Evrópu er með á dagskrá, nema reyndar þjóðernis­íhaldið í Ungverjalandi, sem keyrði í gegn nýja stjórnarskrá fyrir nokkrum árum þvert ofan í gagnrýnisraddir.

En einhvern veginn þykja svona hugmyndir bara orðnar eðlilegar hér, stórir flokkar setja mál sem þessi efst á stefnuskrána og gera jafnvel að skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku. Þrátt fyrir allan okkar árangur og sterka stöðu þá er talað eins og að kerfið sé ónýtt og þurfi að vera endurbyggt frá grunni.

Svolítið eins og að taka út hús sem þarf vissulega að dytta að og halda við, en komast að þeirri niðurstöðu að ekkert dugi nema að rífa það fyrst.

Þunn lína

Auðvitað á ekki að nema staðar, halda að allt sé hér í toppstandi og að ekki þurfi frekari breytinga við. Það er stór hluti af okkar velgengni að við gerum kröfur til okkar, viljum að hér sé vandað til verka. En metnaður til að gera betur, hlusta á gagnrýni og bæta úr, má ekki breytast í tilfinninguna um að okkur hafi ekkert orðið ágengt.