Sú stórsókn sem hafin er í samgöngum snýst ekki um kílómetra heldur um mannslíf og lífsgæði. Sóknin felst í stórauknum framlögum ríkisins til vega, hafna og flugvalla um allt land. Samgöngukerfið er lífæð samskipta og viðskipta í landinu okkar. Betri samgöngur milli byggða stækka atvinnu- og skólasóknarsvæði og styrkja byggðarlögin og samfélög þeirra.

900 milljarða umfang

Í nýendurskoðaðri samgönguáætlun er beint framlag ríkisins 640 milljarðar króna á næstu fimmtán árum. Þegar við tökum með í reikninginn samgöngusáttmála ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og þau sex verkefni sem Alþingi hefur samþykkt að falli undir samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila (PPP), Sundabraut, nýja Ölfusárbrú, láglendisveg í Mýrdal og göng gegnum Reynisfjall, nýja brú yfir Hornafjarðarfljót, nýjan veg um Öxi og tvöföldun Hvalfjarðarganga þá er heildarumfang samgöngumála á næstu 15 árum um 900 milljarðar króna.

Samgöngusáttmálinn

Það markaði tímamót þegar skrifað var undir samgöngusáttmála um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Segja má að frost hafi ríkt í samskiptum ríkis og borgarinnar á síðustu árum og jafnvel áratugum, þegar kom að uppbyggingu samgönguinnviða. Ekki ríkti heldur samstaða um heildarsýn hjá sveitarfélögunum sex. Sú sátt sem náðist um heildarsýn um uppbyggingu hefur í för með sér stórkostlegar framfarir í samgöngum á suðvesturhorninu.

Meira en tvöföldun framlaga

Framlög til vegagerðar, nýframkvæmda og viðhalds, hafa verið aukin um 117% frá árinu 2016. Ég hef lagt mikla áherslu á að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegunum inn á höfuðborgarsvæðið, frá Keflavíkurflugvelli, frá Borgarnesi og frá Hellu. Það hefur sýnt sig að aðskilnaður akstursstefna á Reykjanesbrautinni hefur aukið öryggi og bjargað mannslífum á þessari fjölförnu leið.

Fækkun einbreiðra brúa

Ég hef einnig lagt mikla áherslu á að fækka einbreiðum brúm, sérstaklega á hringveginum, en þær eru sérstaklega hættulegar, ekki síst þegar umferðin hefur stóraukist og fólki sem ekki er vant íslenska vegakerfinu hefur fjölgað á vegunum. Á næstu fimm árum mun einbreiðum brúm á hringveginum fækka um 17.

Núllsýn í umferðinni

Ég hef bent á það í ræðu og riti að það er ekki langt síðan við misstum marga á hverju ári sem fórust á sjó. Með markvissum aðgerðum og samvinnu opinberra aðila og útgerða og auðvitað betri tækni höfum við náð að fækka þeim sem drukkna í hafi. Takmarkið þar er að enginn farist og það er takmark sem við getum yfirfært á umferðina á næstu árum þegar við höfum komið vegakerfinu í betra horf. Það er markmið samgönguáætlunar til fimmtán ára og því mun ég fylgja eftir af öllum mætti.